29.6.2007 | 18:30
Eitt blautasta land veraldar...
Núna stendur monsoon tímabilið yfir hér í Mumbai, en það varir frá júní og út september. Ég hef aldrei á ævinni kynnst annarri eins rigningu og hér, enda þarf maður stundum að vaða í allt að 10 cm djúpu vatni. Rignt hefur nær stanslaust undanfarna daga, fyrst var ég hálf fegin, því ég brann illa í sólinni við tökur fyrir sjónvarpsauglýsingu í sundlaug fyrir rúmri viku síðan. En öllu má nú ofgera og ekki er spáin fyrir næstu 10 daga glæsileg eins og sjá má hér. Nú skil ég hvað átt var við, þegar mér var sagt að Indland væri eitt allra blautasta land veraldar. Og versti mánuðurinn er eftir, því í júlí rignir yfirleitt mest.
Í júlí árið 2005, urðu hér gríðarleg flóð, sem ollu miklu tjóni og um 1000 manns létust (sjá nánar hér). Göturnar hérna breyttust í stórfljót (sjá mynd), en þann 26. júlí 2005 rigndi hvorki meira né minna en 944 mm, sem er eitt það mesta sem mælst hefur í sögunni. Til samanburðar þá er sólarhrings rigningarmetið á Íslandi skv. vef veðurstofunnar 293 mm. Það verður spennandi að sjá hvernig júlí í ár verður hérna.
Hmmm, ég sem sagt hálf öfunda ykkur heima á Íslandi liggjandi í sólbaði. En ævintýrið hér heldur áfram, margt spennandi framundan, var m.a. að fá hlutverk í bíómynd, þar sem ég leik á móti upprennandi stórstjörnu, að því er mér er sagt. Segi ykkur meira frá því síðar.
Athugasemdir
Fróðlegt og skemmtilegt blogg hjá þér Bryndís! Haltu áfram á þessari braut.
Siggi J. (IP-tala skráð) 1.7.2007 kl. 01:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.