4.7.2007 | 03:23
Orðin leikkona...
Nei ég segi svona, en ég fór í minn fyrsta tökudag fyrir bíómyndina Stardust í dag, en skv. planinu þá verða þetta 5-6 tökudagar fyrir mitt hlutverk. Áður en ég fór hingað til Mumbai á vegum Eskimo Models, reiknaði ég með að fást aðallega við týpísk fyrirsætustörf, en nú er ég búin að vera hérna í rúmar 3 vikur og þegar búin að taka þátt í þremur Bollywood bíómyndum, sem er verð ég að segja mjög skemmtileg reynsla. Og svo er ekki verra að þetta eru allt saman myndir sem eru líklegar til vinsælda því í þeim leika topp leikarar.
Í Stardust leik ég á móti leikara sem heitir Tarun Khanna (sjá mynd), sem er mjög þekktur hér á Indlandi og upprennandi stórstjarna, að því er mér er sagt. Allavega varð Enakshi, en hún er framkvæmdastjóri Eskimo skrifstofunnar hérna, rosalega spennt þegar ég var beðin um að leika á móti honum.
Í dag þurfti ég að fara með ca 10 línur. Var mjög stressuð fyrst um morguninn, þar sem ég er nú enginn pró í ensku. En stressið hvarf fljótt og var ég ekki neinum vandræðum með að muna línurnar mínar. Sem sagt, þetta gekk bara nokkuð vel og heyrði ég að leikstjórinn vilji fá mig í fleiri myndir. Alltaf gaman að fá hrós, en sumir sögðu að ég væri fædd með leikhæfileika, þó svo að ég vilji meina að ég sé hörmuleg leikkona, enda aldrei stefnt á þá braut.
Hlutverkið sem ég leik er svaka kúl gella sem er lífvörður mafíósa, sem aðalleikarinn Tarun leikur. Í myndinni hér til hliðar sjáið þið mig í búningnum, sem er all svakalegur eða hvað finnst ykkur?
Ég var nú ekkert voðalega sátt við "make-up artistana", en á mig var sett þykkt lag af appelsínugulu meiki og þegar ég reyndi að dreifa aðeins úr því komu bara hvítar rákir. Því meira sem ég reyndi að laga það, því verra varð það og verð ég að segja að mér leið hálf illa með þessi ósköp framan í mér. En hvað veit ég svo sem um make-up fyrir kvikmyndatöku.
Að tökum loknum í dag, bauðst Tarun Khanna til að skutla mér heim, sem ég þáði en það var um klukkutíma akstur frá tökustað. Á leiðinni sagði hann mér hálfa ævisöguna sína og svo vildi hann endilega bjóða mér út að borða; greinilega vel þjálfaður "playboy". Ég afþakkaði það, sagðist ekki vera neitt svöng, en samt enduðum við á Pizza-hut. Hann var auðvitað á "diet", eins og flestir strákarnir hérna í þessum bisness, fékk sér bara hvítlauksbrauð á meðan ég torgaði einni pizzu. Að því loknu skutlaði hann mér svo heim; indælis náungi annars.
Þegar heim var komið loksins og ég að deyja úr þreytu, sagði ein konan hér á skrifstofunni að ég þyrfti að færa mig um herbergi, reyndar í stærra og það helst strax, því annars yrði hún að vekja mig eldsnemma í fyrramálið, sem var ekki mjög freistandi kostur.
Síðar um kvöldið fórum við stelpurnar svo út að borða á stað sem heitir Little Italy. Þetta var kveðjukvöldverður fyrir Evu, sem er að fara heim til Íslands. Í fáum orðum sagt þá var þetta hörmulegur staður. Starfsmennirnir gátu ekki slitið af okkur augum allan tímann, eins og við værum úr öðrum heimi, sem má svo sem til sanns vegar færa. Síðan var þjónustan slök, tók langan tíma og loks þegar maturinn kom þá var hann kaldur. Sem sagt þetta er staður sem við förum nær örugglega aldrei aftur á.
En meira síðar!
Athugasemdir
Vonandi slærðu í gegn sem leikkona, tekur þig glæsilega út í þessu dressi
Sævar Einarsson, 4.7.2007 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.