29.7.2007 | 03:50
Má bjóða þér kampavínspípu?
Ég hef farið á nokkur kaffihús hér í Mumbai, þar sem boðið er upp á að reykja vatnspípur. Eftir að hafa rannsakað málið aðeins með aðstoð Google, þá komst ég að því að þetta er tiltölulega ný tískubóla ekki bara hér heldur einnig í Evrópu og Bandaríkjunum. Líklega berst þetta ekki til Íslands héðan af, þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að banna lýðnum að reykja á veitingastöðum. Ég vil taka það fram að í eigingirni minni þá er ég ánægð með þetta framlag forræðissinnaðra stjórnmálamanna (þrátt fyrir að ég þoli ekki slíka stjórnmálamenn), því mér hefur alltaf fundist reykingar ógeðslegar og það versta við að fara á veitingastaði hefur verið að anga á eftir af reykingalykt.
En aftur að vatnspípunum. Ég sagði hér að ofan að um tískubólu væri að ræða, sem er kannski ekki alveg rétt, hvað Indland varðar, því vatnspípan er upprunnin héðan og á sér víst sögu eitthvað aftur í aldir. Hún er kölluð hookha og virkar þannig að kveikt er upp í tóbaki eða jurtum og reykurinn síaður í gegnum vatn, a.m.k. er það algengast. Það sem vakti athygli mína á einu kaffihúsinu, var að hægt var að fá sér vatnspípu, þar sem boðið var upp á ýmsar ávaxtabragðtegundir og á einum stað var boðið upp á kampavín í stað vatns. Reynt var að telja mér trú um að það væri ekkert óholt að reykja jurtir í gegnum kampavín, þar sem um ekkert nikótín væri að ræða eða önnur eiturefni sem fylgja brennslu tóbaks. Ég tók reyndar ekkert mark á því, því reykur er jú reykur og það getur varla nokkurn tímann verið holt að anda að sér reyk; það segir sig sjálft, er það ekki?
Athugasemdir
Flest er nú til, "já ég ætla að panta pípu með dassa af kampavíni og skvettu af jarðaberjum"
Sævar Einarsson, 31.7.2007 kl. 11:50
hæhæhæ =) hey ég sá þessa færlsu í mogganum :D
er langt þangað til þú kemur heim stelpa???
Svenni (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 20:12
Hæ Svenni; það er ekki alveg komið á hreint hvenær ég fer heim, en líklegast fljótlega eftir 20. ágúst.
Bryndís Helgadóttir, 3.8.2007 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.