19.7.2007 | 02:18
Ævintýraferð til Pune
Eins og fram kemur í færslunni hér á undan dvaldi ég á hugleiðslumiðstöð (e. meditation resort) um helgina. Þetta var í borg sem heitir Pune, sem er önnur stærsta borgin á Maharashtra fylkinu, á eftir Mumbai, með "aðeins" 4,5 milljónir íbúa, þ.e.a.s. innan við fimmtung af íbúum Mumbai. Borgin er á hásléttu sem heitir Deccan og er 560 metra yfir sjávarmáli, sem gerir loftslagið svolítið öðruvísi heldur en niður við ströndina; mun ferskara, sérstaklega á kvöldin. Hún er stundum kölluð "Oxford Indlands", þar sem í henni eru margir af bestu háskólum Indlands og hér er einnig mikið um hátækniiðnað, t.d. mörg hugbúnaðarfyrirtæki og þá er þetta helsta bílaframleiðslusvæði Indlands. Pune er mjög frábrugðin Mumbai, hérna er mun hreinna og andrúmsloftið betra. Veðrið var gott alla helgina, sól og þægilegur hiti, utan einn morgunin sem rigndi aðeins.
Hugleiðslumiðstöðin sem við fórum í er hreint út sagt frábær og á ég varla til nógu sterk orð til að lýsa hrifningu minni yfir henni. Byggingarnar eru ægifagrar, gestahúsið eins og flott 5 stjörnu hótel, hugleiðslubyggingin er píramídi úr svörtum marmara og síðan er garðurinn sá allra fegursti sem ég hef nokkurn tímann séð. Þá var allur aðbúnaður og þjónusta eins og best gerist, sem sagt allt tipp topp og fyrsta flokks.
Mér fannst það dálítið sérstakt, þegar við vorum að skrá okkur inn var tekið HIV/AIDS próf af okkur öllum, en neikvæð útkoma úr slíku prófi er víst skilyrði fyrir inngöngu í miðstöðina. Tekin var blóðprufa og eftir ca korter var niðurstaðan komin. Síðan urðum við að kaupa okkur sérstaka kufla, einn vínrauðan fyrir dagfundina og svo hvítan fyrir kvöldfundina. Ef maður ætlaði að taka þátt í "silent meditation" varð maður að auki að kaupa hvíta sokka. Og ef maður vildi nota sundlaugina í garðinum, þá varð maður að kaupa sérstök vínrauð sundföt. Ég ákvað að sleppa því, enda fannst mér þau ekkert falleg.
Boðið var upp á mjög margar hugleiðsluaðferðir, miklu fleiri heldur en ég vissi að væru til, nokkrar þar sem svona hefðbundnar hugleiðslustellingar voru notaðar, aðrar þar sem dans var notaður og svo var einhver hópur þarna, þar sem fundirnir gengu einn daginn út á að hlæja og hinn daginn að gráta í heila 2 klukkutíma. Það var dálítið sérstak að koma inn í hugleiðslupíramídann, þar sem allt fólkið var í eins kuflum og þvílíka ró og friðsæld hef ég aldrei upplifað. Ég reyndar lenti í smá veseni á fyrsta hugleiðslufundinum, því ég var með kvef og gat ekki haldið í mér hóstanum. Að hósta var eðlilega stranglega bannað og ég var vinsamlega beðin um að yfirgefa svæðið hið snarasta. Betur gekk á næstu fundum, nema hvað mér fannst rosalega erfitt að halda mér vakandi á meðan hugleiðslunni stóð og fann ég til mikillar þreytu í lok hvers fundar. Hver fundur stóð yfirleitt í 1 klst nema hvað kvöldfundirnir voru í 2,5 klst.
Gestirnir þarna komu víða að úr heiminum og hitti ég m.a. ástralska konu sem talaði íslensku, en hún dvaldi einu sinni á Íslandi í eitt ár. Athyglisvert var hvað fólk var alúðlegt þarna, allir alltaf faðmandi alla og allir rosalega glaðir. Það var eiginlega hálf óþægilegt í byrjun hvað allir voru ofur vingjarnlegir en svo vandist það og manni fannst það mjög þægilegt.
Sem sagt þetta var frábær reynsla og er ég Ástu hjá Eskimó mjög þakklát fyrir að hafa farið með okkur. Ég er mikið að spá í að fara aftur ef ég mögulega get við fyrsta tækifæri.
Athugasemdir
Flott blogg hjá þér!
Bjarni M. (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 09:39
Magnað að það tók ekki nema korter að fá niðurstöður úr HIV/AIDS, það væri ekki svo flókið að minnka smit á HIV/AIDS verulega allstaðar með því senda alla í slíkt test á viðkomandi flugvelli, þar stæði læknir við terminal og tæki blóðprufu úr öllum og þetta væri svo rannsakað á meðan fólk væri að bíða eftir að komast í gegnum tollinn, svo væri hægt að koma í veg fyrir að allskonar pestir berist landa á milli, kannski finnst einhverjum þetta svolítið öfgakennt, en mér finnst það ekki. En nóg um það, mikið svakalega öfunda ég þig, þetta eru ekkert smá flottar myndir, mig langar til Indlands.
Sævar Einarsson, 19.7.2007 kl. 11:40
Þegar ég hugsa málið betur um Indlandsför þá ætti maður kannski að slá því á frest Ömmu hent á haugana
Sævar Einarsson, 19.7.2007 kl. 11:44
Gaman að fylgast með þessu ferðalagi.
Takk, takk.
Lúther
S. Lúther Gestsson, 19.7.2007 kl. 14:23
Ég fór til Pune 2003. Tók Rútu frá Bombay. Var þar í 3 vikur og gerði heimildarmynd "proximitas". Áhugaverður bær. :)
sjá brot úr myndinni hér:
http://www.youtube.com/watch?v=YiPeKOwIbL0
Ólaf de Fleur Jóhannesson, 20.7.2007 kl. 02:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.