31.7.2007 | 04:48
Helgardagbókarfærsla
Helgarnar hérna í Mumbai hjá mér hafa allar verið viðburðaríkar, svo mjög að ég hef yfirleitt alveg gleymt að blogga um þær og ætla ég nú að gera smá bragabót þar á. Síðustu helgi fór ég m.a. og kíkti á útsölur, fór tvisvar í bíó, tvisvar út í kvöldverð og svo kíkti ég inn á klúbbana China House á Grand Hyatt hótelinu og Poison, sem báðir eru mjög vinsælir hér.
Eins og ég sagði í þessari færslu hér hef ég kynnst aðallega fólki sem segja má að tilheyri "þotuliðinu" hérna, sem alltaf er að bjóða mér eitthvað dýrt og fínt. Indverjar, a.m.k. þeir sem tilheyra hástéttinni, virðast almennt vera mjög opnir og alúðlegir og á það ekki síst við ef maður ber saman við okkur Íslendinga. Stundum finnst mér þeir vera með sýndarmennsku eða svona nýríkra takta, þar sem boðið er stórt og mikið og fær maður óhjákvæmilega á tilfinninguna að verið sé að reyna við mann en svo kynna þeir manni fyrir konunni sinni, sem er mikill léttir. Rétt er að það komi fram að Indverjar eru a.m.k. á yfirborðinu mjög siðvandir, t.d. fer það fyrir brjóstið á mörgum að sjá mann á hlýrabol, ef sést í brjóstskoru eða ef maður er í stuttum kjól (reyndar allt í lagi þó maginn sé ber). Á skemmtistöðum hef ég séð dyraverði vísa fólki á dyr sem hefur gerst of nærgöngult við hvort annað, sem sagt kossaflens eða vangadans er ekki vel séð hér.
Á meðal þess sem mér var boðið um helgina og ég hef ákveðið að þiggja er heimsókn í hestabúgarð, þar sem ætlunin er að ríða út á gæðingum og svo ferð til Jaipur, þann 11. ágúst n.k. degi eftir afmælisdaginn minn. Jaipur, stundum kölluð "Bleika borgin", sem hlýtur þ.a.l. að eiga vel við mig , er ein fjölsóttasta ferðamannaborgin á Indlandi og er hluti þess sem kallað er "Gullni þríhyrningurinn", ásamt Delhi og Agra. Hún er sögð vera ein fegursta borgin á Indlandi, með helling af merkum byggingum; höllum, kastölum og virkjum. Ég hlakka mjög til að fara, enda ferðalög eitt af mínum helstu áhugamálum. Ég vonast til að við förum líka til Agra, sem er ekki langt frá, en þar er einmitt eina frægustu byggingu heims að finna, Taj Mahal, sem ég hef alltaf stefnt að fara að sjá, fyrst ég er á annað borð hér á Indlandi. Þess má geta að farið verður á einkaþotu og má ég bjóða með mér vinkonum mínum.
En aftur að helginni. Það var dálítið fyndið að ég hitti tískuhönnuðinn fræga Rocky S, sem ég er að fara að vinna fyrir, bæði kvöldin, á China House og Posion. Þegar ég kom inn á China House, kallaði hann yfir salinn að þarna væri módelið hans og bað mig að koma til sín, þar sem hann faðmaði mig að sér og sátum við hjá honum og hans liði í nokkra stund. Mjög elskulegur náungi, en eins og flestir í hans geira þá er hann samkynhneigður. Fyrr um laugardagskvöldið fórum við stöllur, Karishma sem er frá Ástralíu og þær ungversku Anna og Rebekka, sem eru nýkomnar hingað, út að borða á stað sem heitir Myst. Þetta er orðinn einn af mínum uppáhalds veitingastöðum, mjög fínn og góður matur, ítalskur, indverskur og kínverskur. Í þetta skiptið fengum við okkur í forrétt ristað brauð með 3ja osta sósu, sem var frábær; síðan grænt pasta sem var ekkert smá gott og svo fékk ég mér súkkulaðiköku og ís í eftirrétt, en hinar ekki neitt, því þær eru í megrun. Og ekki skemmdi það að við þurftum ekkert að borga fyrir matinn, þar sem Karishma þekkir eigandann, sem settist hjá okkur og spjallaði í smá stund.
Læt staðar numið að sinni, hef vonandi frá einhverju skemmtilegu að segja fljótlega.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.