Æðislegur útreiðartúr í fjöllum Indlands

Anna, Rebekka og BryndísEinn af fjölmörgum vinum sem ég hef eignast hér á Indlandi, Biren að nafni bauð mér í frábæra hestaferð sl. miðvikudag.  Tók ég Önnu og Rebekku með, sem eru nýju stelpurnar frá Ungverjalandi og fórum við til bæjar sem heitir Mathras, en þar á vinur Birens hestabúgarð.   Mathras er í ca 1,5 tíma fjarlægð frá Mumbai, en við vorum samt u.þ.b. 3 tíma að keyra vegna mikillar umferðar á leiðinni þangað.   

Fljótlega eftir að maður kemur út fyrir stórborgina tekur við mikil náttúrufegurð, gróðri vaxið fjalllendi, sem er ótrúlega fallegt, svo mjög að maður stundum fær bakþanka hvað varðar ofurstolt sitt fyrir íslenskri náttúrufegurð.   Þetta er allt öðruvísi heldur en ég hafði gert mér í hugarlund áður en ég kom til Indlands, hélt að hér væri allt miklu þurrara og flatneskjulegra.   Sem sagt hér er gróskan mikil, allt fagurgrænt, fallegt landslag, fjöll, ár og vötn.

Flott útsýniÞegar á búgarðinn var komið, var ekki staldrað lengi við heldur farið strax á hestbak.  Nokkrir starfsmenn komu með hestana og hjálpuðu okkur á bak, en þeir fylgdu okkur svo alla ferðina, sáu um farangurinn og hjálpuðu okkur með hestana.   Fyrst fékk ég stóran og mikinn dökkbrúnan gæðing, sem var helst til of fjörugur fyrir mig og lét ekkert sérlega vel að stjórn, sem væntanlega var mér að kenna, þar sem ég er nú ekki vön á hestum.   Þó að veðrið hafi verið gott, þ.e.a.s. enginn rigning, þá var plast á hnökkunum til að verja þá gegn bleytu, sem gerði þá hála og auðveldaði það ekki fyrir.    Ég var nokkrum sinnum næstum dottin af baki, en svo fékk ég annan hest, ljósbrúnan öðling, sem var miklu auðveldara að stjórna; sá var eins og hugur minn.   Það var samt sem áður engin trunta, því hann gat heldur betur hleypt úr spori, en við fórum örugglega hátt í 40 km hraða þegar mest lét.

Á fossbrúninniVið riðum fyrst á sléttlendi en síðan fórum við upp í fjöllin.  Stöldruðum fyrst við litla á, þar sem við brugðum okkur út í og óðum, þar til við komum að háum og tignarlegum fossi.  Útsýnið af fossbrúninni var vægast sagt stórkostlegt.   

Þarna var mikið af litlum öpum, svonefndir macaque-apar sem eru um ca 60 sm á hæð og vega fullvaxnir um 15 kg.  Litlu ungarnir voru algjör krútt.

AparSíðan héldum við áfram upp í fjallið, þangað til að við komum í lítið þorp. Það var eins og að koma langt aftur í aldir að koma í þetta þorp.   Þarna var ekkert rafmagn og þar af leiðandi ekkert af því rafmagnsdóti sem fylgir nútímamanninum, engin vélknúin ökutæki (enda ekki fært á bílum þarna upp fjallið) og virtist fólkið þarna lifa algjörum sjálfsþurftar búskapi.   Það var sko ekki stessinu fyrir að fara þarna, svo mikið er víst.   

Læt nokkrar myndir fylgja hér úr ferðalaginu.  Fleiri myndir er svo að finna hér.   Vonast til að bæta fleirum við, en rafhlaðan úr myndavélinni minni kláraðist, þannig að ég náði ekki að taka neinar myndir af hestunum eða í þorpinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það ætti að senda Andra Snæ, Ómar Ragnarsson og aðra virkjanaóvini í þetta þorp og geyma þá þar...

Bjarni M. (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband