9.8.2007 | 16:41
Engin stórflóð hér í Mumbai
Vegna frétta um alvarleg mannskæð flóð hérna á Indlandi, þá vil ég að það komi fram að ekkert hættuástand hefur skapast hér í Mumbai. Hérna á vesturströndinni hefur monsún-tímabilið verið svona nokkurn veginn samkvæmt venju, en eins og ég sagði frá í þessari færslu hér urðu mannskæð flóð hérna fyrir tveimur árum síðan. Ástandið er víst alvarlegt núna í Suður-Indlandi og Norð-austur héruðum Indlands, t.d. í Patna, þar sem myndin með frétt Morgunblaðsins var tekin. Annars skilst mér að ástandið sé jafnvel enn verra í Bangladesh, Nepal og sennilega verst í Kína.
Síðan ég kom hingað í byrjun júní, hefur rignt flesta daga, stundum stanslaus rigning allan daginn og þá veður maður sumar götur hér vel upp fyrir ökkla (sjá myndina hér til hliðar sem var tekin sl. föstudag), en svo koma dagar, þar sem dembur koma inn á milli og þá er ég ekki að tala um neinar smá dembur, því það er stundum þannig að það er eins og maður hafi fengið heila sundlaug yfir sig. Ég hef ekkert látið þetta á mig fá, hef oft lent í þessu án regnhlífar og verð þá að sjálfsögðu gegnblaut á svipstundu, en það er ekkert svo vont þegar hitastigið er í kringum 30 gráðurnar eins og það er yfirleitt hér. Svo koma stundum dagar þar sem ekkert rignir og sést jafnvel aðeins til sólar, en lengsta hléið varði alveg í 10 daga, ef ég man rétt.
Þessar miklu rigningar hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á allt hér, bæði jákvæð og neikvæð. Þær eru undirstaða þess mikla landbúnaðar sem hér er stundaður, en jafnframt helsta ógnin við hann þegar þær fara úr hófi eins og gerst hefur nú á ákveðnum svæðum. Þetta er hins vegar versti tíminn fyrir þann bransa sem ég er í, þar sem fólk forðast að setja stór verkefni í gang. Mikið er um að tökum sé frestað vegna rigninga, sem oft setur allar tímaáætlanir úr skorðum. Ég lenti t.d. í því í morgun að þurfa að mæta á tökustað í Film City, vegna Airtel sjónvarpsauglýsinganna, sem ég sagði frá hér, kl. 5 í morgun, en þurfti að bíða til klukkan 3 í eftirmiðdaginn þangað til kom að mér. Það var reyndar ekki bara rigningadembum að kenna, heldur einnig skipulagsleysi, sem er algengt vandamál hér um slóðir. Þessar tökur fyrir Airtel hafa annars verið mjög skemmtilegar; auglýsingarnar eru í anda India Jones, með fullt af spennu- og áhættuatriðum. Segi ykkur nánar frá því síðar.
Hérna er svo stutt videó sem gefur ykkur smá sýnishorn af alvöru rigningu hér í Mumbai:
Ath: Ef þú vilt sjá fleiri skyld videó, þá getur þú smellt á myndir sem birtast neðst, þegar þetta videó er búið.
Yfir 2.000 látnir í flóðunum í Suður-Asíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sææl elskan min!! Ég er ekki frá því að þú sért orðin 18 ára samkvæmt indverskum-tíma :D (en þó ekki á íslenskum-tíma)
Svo TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ ástin m
Ásdís Hrund (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 19:34
TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ ÁSTIN MÍN!!!!
Njóttu dagsins til hið ýtrasta, hlakka svo til að fá þig heim!!
lovelovelove, Ásdís Hrund
Ásdís Hrund (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 19:35
Til hamingju með afmælið sætA;)
María (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 10:51
Elsku stúlkan mín
Hjartanlegar hamingjuóskir með daginn,gangi þér alt vel,afi biður að heilsa,hlakka til að fá þig heim.kveðja amma
Kristin amma (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 15:13
Sæl elsku "litla" frænka mín og til hamingju með afmælið. Það er búið að vera frábært að fá að fylgjast með dvöl þinni á Indlandi, engin smá lífsreynsla. Gangi þér vel og farðu varleg hlakka til að sjá þig þegar þú kemur heim. Kær kveðja frá öllum í Suðursölunum, Alexandra hefur fylgst spennt með stóru frænku sinni.
Kossar og knús
Hafdís
Hafdis Viggosdottir (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 23:44
Hef verið að glugga í gegnum bloggið hjá þér. Þetta er klassablogg, þyrfti að vera meira um svona lagað í bloggheimum í stað venjubundinna athugasemda um hvað fólk les í mogganum sínum. Flott, flott.
Lárus Gabríel Guðmundsson, 11.8.2007 kl. 08:41
Alveg sammála Lárusi hér að ofan. Færslan bætir við fréttina og gefur henni meiri dýpt og þjónar þannig lesandanum vel - gæti trúað að moggamenn hafi einmitt haft þetta í huga þegar þeir bættu við "blogga frétt". Aðrir bloggarar hér mættu taka þig til fyrirmyndar. Flestir þeirra og á það sérstaklega við þegar þeir eru að blogga fréttir, eru með innihaldslausar athugasemdir sem bæta engu við fréttina og hafa ekkert gildi fyrir lesendur - virðist sem þeir séu að þessu bara til að plata fólk inn á síðuna sína til að hífa upp innlitstalninguna sína. Þá finnst mér einnig til fyrirmyndar hvernig þú notar hlekki svo maður geti sótt frekari fróðleik um málefnið sem þú ert að skrifa um. Mjög gott!!!
Siggi J (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 23:51
Ásdís, María, amma og Hafdís; takk kærlega fyrir afmæliskveðjuna.
Lárus og Siggi; takk fyrir hrósið. Það gleður mig að ykkur líki bloggið mitt.
Bryndís Helgadóttir, 12.8.2007 kl. 17:21
Mjög gott fréttablogg!
Þorsteinn J. (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 13:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.