24.8.2007 | 03:57
Komin heim
Fyrsta hindrunin þegar út á flugvöllinn var komið var að skrá sig inn og fylla út ítarlegt eyðublað, en Indverjar eru ennþá mikið fyrir allskyns óþarfa skriffinnsku. Sjálfsagt hef ég litið eitthvað aumingjalega út því fyrr en varði vatt indverskur herramaður sér að mér og bauðst til að hjálpa mér að fylla eyðublaðið út. Kom í ljós við eyðublaðsútfyllinguna að hann býr í sömu götu og ég bjó í. Síðan leiðbeindi hann mér um flugvöllinn og að lokum bað hann mig um tölvupóstfangið mitt. Kosturinn við tölvupóstinn er að maður þarf ekkert að svara honum frekar en maður vill. En það er dálítið merkilegt hvað karlmenn bæði á Indlandi og í Englandi ganga hreint og beint til verks m.v. þá íslensku, hvað varðar að biðja mann um kontakt upplýsingar. Er að spá í að láta prenta fyrir mig nafnspjöld næst þegar ég fer út; tvær útgáfur, eina með réttum upplýsingum og aðra fyrir þá sem maður hefur engan áhuga á að kynnast frekar.
Eftir lendinguna á Heathrow, fór ég strax að sækja töskurnar mínar. Fór á færiband nr. 8, þar sem stóð skýrum stöfum Bombay og beið þar í drykklanga stund eða þangað til að enskur strákur, sem var í sömu vél og ég kom til mín og benti mér á að töskurnar úr vélinni okkar væru á færibandi nr. 1. Síðan bauðst hann til að fylgja mér frá terminal 3 til terminal 1, sem ég þáði með þökkum. Mjög vingjarnlegur náungi sem bauð mér upp á kaffibolla þegar á terminal 1 var komið og spjölluðum við um heima og geima um stund. Og að sjálfsögðu bað hann mig um tölvupóstfangið mitt áður en við kvöddumst.
Eftir að hafa kíkt á brottfararskjá til að átta mig á stöðu Icelandair vélarinnar fór ég að kíkja í búðir. Eitthvað gleymdi ég mér í búðarápinu, því næst þegar ég kíkti á skjá sá ég mér til skelfingar að í töflunni stóð með rauðum stöfum "Gate Closed" við hlið nr. 40, þar sem vélin mín var.
Eftirleikurinn var eins og ég væri að leika í grínmynd, þar sem allt gengur á afturfótunum. Í algjöru sjokki byrjaði ég að hlaupa í átt að hliðinu, en taskan mín var opin þannig að dótið dreifðist úr henni. Safnaði ég því saman með aðstoð fólks sem var í kringum mig og svo byrjaði ég að hlaupa aftur og enn hafði ég ekki lokað henni nógu vel, þannig að sagan endurtók sig. Þegar ég hafði safnaði dótinu mínu aftur og lokað töskunni tryggilega í þetta sinn með aðstoð hjálpsamrar konu, tók ég sprettinn aftur, þangað til að ég varð að hægja á mér þar sem ég var alveg komin í spreng, enda taskan níðþung. Og hvað haldið þið að hafi gerst þá? Jú, einhver karlklaufi kemur hlaupandi á harða spretti og hleypur mig niður, þannig að ég misst allt dótið mitt eina ferðina enn.
Þegar ég loks komst í hliðið, þá var verið að bíða eftir mér og allir komnir inn. Munaði mjög litlu að ég missti af fluginu. Á heimleiðinni sat ég hjá 2 indælum konum, sem voru að koma úr golfferð ásamt 30 öðrum íslenskum konum.
Þegar ég loks komst út um græna hliðið framhjá herskara tollvarða (ætli Ísland sé eina landið í heiminum þar sem tollverðir standa í græna hliðinu?), biðu eftir mér pabbi og mamma, Þórður Örn litli bróður minn og Íris vinkona sem færði mér rós. Það voru miklir gleðifundir.
Þetta er líklega ekki lokabloggið mitt um ferðina mína, því mér finnst ég eiga svo margt skemmtilegt ósagt ennþá, en það kemur í ljós fljótlega.
Athugasemdir
Snilldar hugmynd hjá þér þetta með 2 tegundir af nafnspjöldum SNILLD. Já eru íslenskir karlmenn mun ófrakkari en þessir indversku og bresku, ég held að þið ættuð að vera því fegnar aldrei myndi mér ekki detta í hug að spurja svona, mér finnst það dónaskapur. En vá hvað þessi rella er aðeins stærri en Bryndís(flugvélin sem ég tók út heitir Bryndís) og þessi saga hjá þér með "Gate Closed" minnti mig óneytanlega mikið á þegar ég var í Vilnius í fyrra, ég leit svo skemmtilega vitlaust á brottfarartíma og þegar ég mætti 1 tíma fyrir brottför stóð "Gate Closed" og vélin var að fara frá rananum, þá voru góð ráð mjög dýr því ég þurfti að kaupa miða með Finnair til Helsingi svo ég missti ekki af tengifluginu til Íslands sem var 6 tímum seinna.
Sævar Einarsson, 24.8.2007 kl. 08:52
Sævar: Já, við hér á Fróni erum alla vega ekki vön svona beinskeytni en þetta telst sennilega ekki til dónaskapar þarna úti. He he, já ætli ég láti ekki bara verða að því prenta tvær útgáfur....
Takk, Berglind!
Bryndís Helgadóttir, 26.8.2007 kl. 01:02
Fyndið þetta á flugvellinum :)
Sá eina frá asíu lenda í að missa tösku niður stiga af annarri hæð á Heathrow...og allt út um allt...og ekki nóg með það heldur var taskan ónýt! Þurfti að samfna dótinu sínu í hrúgu og setja í poka....frekar fyndið fyrir okkur hin en ömurlegt fyrir hana. !
Gummi (IP-tala skráð) 26.8.2007 kl. 17:25
Já, ég held að þetta sé rétt hjá þér með tollverðina í græna hliðinu. Ég hef ferðast ansi víða og man ekki eftir neinu landi þar sem þetta er svona. Það er eins og að koma til lögregluríkis þegar maður kemur til Íslands. Hreint fáránlegt!
Bjarni M. (IP-tala skráð) 26.8.2007 kl. 22:22
Velkomin heim kæra frænka....gaman að fylgjast með þér á Indlandi. Rosalega hefur þetta verið gaman hjá þér.
Berglind (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 23:16
Gummi; já, ég myndi ekki hlægja af henni eftir mína reynslu...
Já Bjarni, þetta er ömurlegt upp á að horfa, einhver tímaskekkja í gangi þarna. Þarf sennilega að fá nýtt ferskt fólk í stjórnsýsluna.
Hæ frænka, takk kærlega. Jú þetta var æðislega gaman einu orði sagt!
Bryndís Helgadóttir, 28.8.2007 kl. 22:00
Sammála ykkur með tollverðina í græna hliðinu. Ég veit samt ekki hvort þetta sé vegna tilhneigingar til lögregluríkis (vona alla vega ekki), frekar bara að við erum ennþá svo miklir sveitamenn - eða hillbillies eins og Kanarnir kalla þá.
Doddi (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 04:11
Hvernig er það, á ekki að halda áfram að blogga? Bloggin þín eru rosagóð og það væri synd ef þú hættir!
Siggi (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.