Færsluflokkur: Bloggar
4.12.2008 | 09:35
Á Lamborghini í London
Það er kannski tímabært að segja frá því hvernig ferðin mín til Indlands hófst þetta árið, þar sem ég hef gleymt að blogga þar til núna nýlega. En ég lagði af stað til Indlands fyrir næstum 3 mánuðum síðan, eða um miðjan september.
Á leiðinni til Indlands þá stoppaði ég í London í 4 daga meðal annars til að hitta vin minn sem býr þar. Hann á hótel í London og leyfði mér að gista frítt á hótelinu sínu. Hótelið hans er nokkuð sérstakt þar sem ekkert herbergi er eins, heldur hefur hvert herbergi sitt þema. Hótelið er mjög vinsælt hjá fólki í tísku- og tónlitarbransanum og heitir Pavilion Hotel. Þar sem ég hafði ekki komið til London áður, bara á flugvellina og rútu á milli, þá sýndi hann mér það helsta af borginni á meðan ég var þar. Þessi vinur minn safnar bílum og á 2 Lamborghini, Ferrari, Range Rover, Aston Martin og fleiri. Nú við ókum um borgina og meðal annars á Oxford Street og vorum semsé eini venjulegi bíllinn á götunni. Hann var svo sætur í sér að leyfa mér að keyra Lamborghini, sem var æði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2008 | 16:12
Martröð
Jæja, þá er ég flúin frá Bombay úr hryðjuverkaógninni og komin upp í fjöll. Tilefnið er myndataka í 2 daga.
Er nokkuð "save", eða hélt það allavega...
Eftir langan akstur í sveitasælunni, sé þetta hálfkláraða hótel/mótel... og ég geri grín af því að þetta sé örugglega staðurinn sem við (tökuliðið og ég) gistum á. Mér til skelfingar kemst ég að því að þetta er virkilega staðurinn.
Jæja ég verð að taka því og fer inn í herbergið mitt... hmm það lítur vel út við fyrstu sýn. Stórt herbergi með stóru rúmi. Ég fer inná klósettið (já... löng keyrsla!), en sé að það er enginn klósettpappír, svo ég ákveð að fara fram og biðja um tissjúbréf. Á leiðinni út rek ég augun í þessa líka stóru könguló (og þeir sem þekkja mig vita að ég er með mikla fóbíu fyrir þeim). Ég hleyp út og bið um að hún sé drepin. Vola, hún er dauð og mér er óhætt. En nei nei sé svo aðra með risastórar lappir, fær hún sömu örlög og sú fyrsta og önnur til stuttu seinna.
Hélt að allt væri í góðu lagi þá... nema sjónvarpið virkar ekki, sturtan virkar ekki, í herberginu er skítakuldi þar sem flísar eru á gólfinu, sem gerir það enn kaldara. Og það er þessi tómleiki í herberginu.
Ég hugsa með mér að það verði bara að gera gott út þessu og kveiki á betra ljósi... þá kemur í ljós að ég bý með 4, 5, 6 öðrum köngulóm! Ég fríka náttúrulega út. Ein er á svaka hreyfingu og er að elta mig (að mér finnst)!! Hvert sem ég fór þá fór hún í sömu átt og ef ég stoppaði þá stoppaði hún (stundum) til að síga niður og sýna mér þessa fallegu leggi sem hún hafði. Ohhh.
Þar sem allir voru farnir að sofa, gat ég ekki fengið hjálp. Svo nú var ég í vondum málum. Ein um miðja nótt lokuð inni með köngulóm af öllu. Eftir dálitla stund ákvað ég að vera sterk. Ég myndi henda skó í hana í næsta skipti sem hún ætlaði að láta sig síga niður.
Ég stóð vaktina til 3:30 um nóttina og horfði á allar köngulærnar til skiptist á 5 mínútna fresti. Eftir hvatningu frá mömmu (á MSN) um að drepa köngulærnar með skónum mínum. Ákvað ég að láta verða að þessu. Ég byrjaði á að kasta skónum mínum í átt að einni þeirra. En það endaði illa þar sem hún lifði áfram en ég braut ljósið í herberginu mínu og glerbrot voru um allt herbergið. Andsk...
En jæja nóg af minni martröð, hryðjuverkamönnum og köngulóm.
Ég mun bæta einhverjum myndum hérna inná fljótlega =)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.11.2008 | 04:39
Upplifun mín af hryðjuverkunum í Mumbai
Fyrir sakleysing frá Íslandi, sem aldrei hefur orðið vitni af vopnaskaki eða heyrt hleypt af alvöru byssu, ef frá er talið í bíó eða í sjónvarpsfréttunum, er mikið sjokk að vera allt í einu í námunda við svona hræðilegan atburð - í raunveruleikanum. En samt fannst mér eins og að þetta væri ekki raunveruleikinn; fannst ég þurfa að klípa mig til að athuga hvort ég væri ekki bara að dreyma þetta. Þetta var svo sannarlega súrrealísk upplifun.
Klukkan var um tíu og ég var ásamt nokkrum vinum á leiðinni í veislu sem átti að vera Sahara hótelinu, sem ekki er langt frá þar sem hryðjuverkamennirnir létu til skarar skríða. Ég heyrði einhvern hávaða í fjarska, eins og verið væri að skjóta upp flugeldum eða sprengja kínverja; mér datt alla vega ekkert annað í hug. Það var ekki fyrr en ég fékk SMS frá vini, þar sem sagði að yfir stæði árás hryðjuverkamanna, að þeir væru búnir að taka hið sögufræga Taj Mahal hótel og Oberoi hótelið líka. Og hann sagði okkur að snúa strax við og leita skjóls. Þessi vinur minn var rétt hjá Oberoi hótelinu þegar árásin var gerð, sá hryllinginn með eigin augum og ugglaust heppinn að sleppa óskaddaður af vettvangi.
Við snerum strax við og fórum heim til eins af vinum mínum, sem býr næst þeim stað sem við vorum á - þar er ég ennþá strandglópur, því ég hef ekkert þorað að fara út, nema í næstu sjoppu til að kaupa mér tannbursta. Þegar þangað var komið var strax kveikt á sjónvarpinu og horfðum við á atburðina í beinni þar til klukkan var orðin 4 um nóttina. Einnig vorum við í sambandi við vini hingað og þangað um borgina til að afla upplýsinga, en sumir vina minna áttu vini sem voru á meðal gíslana á Taj Mahal hótelinu.
Árásin var greinilega þaulskipulögð, því hún hófst á mörgum stöðum samtímis í suðurhluta borgarinnar, við sjávarsíðuna, en morðingjarnir, sem flestir telja vera múslima af pakistönsku bergi brotnir, komu á bátum inn til borgarinnar. Áður höfðu nokkrir þeirra verið búnir að koma upp stjórnstöðvum á hótelunum sem voru skotmörk.
Strax í upphafi myrtu þeir 3 háttsetta lögregluforingja, þar á meðal yfirmann hryðjuverkadeildarinnar. Þá réðust þeir á miðstöð gyðinga, tóku ísraelska borgara í gíslingu og lögðu áherslu á breska og bandaríska þegna einnig sem gísla. En flest það fólk sem þeir myrtu eða særðu - tölurnar eru núna 125 myrtir og yfir 300 særðir - voru óbreyttir Indverjar, þ.á.m. konur og börn. Hótelstjórinn á Taj Mahal, missti bæði konuna og börnin sín. Fjölskylda sem einn vinur minn þekkti vel, voru öll myrt ef frá er talin móðirin, sem fékk skot í magann og er ennþá lifandi síðast er ég vissi.
Þetta er ótrúleg upplifun. Fyrst er maður agndofa og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Síðan þegar dofinn rennur af manni og maður fer að átta sig á málinu, rennur á mann kokteill af tilfinningum; ótti, umhyggja fyrir þeim sem sárt eiga að binda og svo reiði og önnur vond tilfinning, sennilega eitthvað sem kallast hatur og þá gagnvart þessum aumingjum sem stóðu að þessu.
Hvað græða þessir viðbjóðslegu hryðjuverkamenn á þessu? Að drepa saklaust fólk, konur og börn? Eitt er víst að þeir ná engu fram með þessari geðveiki, þvert á móti, hún yfirgnæfir allt, þ.m.t. málstaðinn sem þeir berjast fyrir, hver sem hann er nú, því þetta eflir aðeins samstöðuna gegn þeim, bæði á meðal almennings, stjórnvalda og alls heimsins.
Leiðtogar þessa heims verða að fara gera eitthvað af viti til þess að uppræta að svona lagað gerist á 21. öldinni. Það þýðir ekkert að beita sömu aðferðum og hryðjuverkamennirnir, þ.e.a.s. að ráðast inn í lönd og drepa fólk. Það verður að ráðast að rót vandans, sem liggur í ömurlegum lífskjörum stórra hópa fólks og afleiðingum þess, þ.á.m. vanþekkingu og virðingarleysi fyrir sjálfum sér og lífi annarra.
39 gíslum bjargað úr hótelinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.6.2008 | 20:36
Ónauðsynlegt dráp?
Fram kemur í 16. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum að hvítabirnir eru friðaðir samkvæmt lögum þessum á landi, hafís og á sundi. Gangi hvítabjörn á land þar sem fólki eða búfénaði er ekki talin stafa bráð hætta af er Umhverfisstofnun heimilt að láta fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar hætta af honum. Fella má hvítabjörn sem gengið hefur á land og fólki eða búfénaði er talin stafa hætta af.
Það er alltaf huglægt mat hvenær það er "talin stafa hætta af" ísbirni og því velta örlög þeirra fáu hvítbjarna sem hingað rata á dómgreind þeirra manna sem að fá það hlutverk að sjá um tilvik slík sem þessi. Fréttin um það að hvítabjörn væri við Þverárfjallsveg í Skagafirði barst rétt fyrir 10 í morgun og væntanlega á sama tíma bárust þessar fregnir til lögreglu. Aðeins 1 og ½ tíma síðar var búið að drepa dýrið! Ég trúi ekki að sú hætta sem stafaði af birninum á Þverárfjallsvegi hafi verið slík að nauðsynlegt væri að drepa dýrið strax. Þau rök sem að lögreglan á Sauðárkróki færir fyrir þessu ljóta og ónauðsynlega drápi eru þau að þeir "vildu ekki missa hann uppí þokuna" og að ekki séu til deyfilyf á landinu til þess að svæfa dýrið meðan á flutningi þess stendur.
Egill Þorri Steingrímsson, héraðsdýralæknir á Blönduósi segir í viðtali við Morgunblaðið fyrr í dag að það sé rangt að ekki sé til deyfilyf í landinu, líkt og umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði í samtali við mbl.is. Hann sagðist meira að segja vera með deyfilyf í bílnum hjá sér og það er til deyfibyssa hjá dýralækninum á Egilsstöðum. Ef hún hefði verið send með flugi þá hefði byssan verið komin á staðinn eftir klukkustund! Hvað lá á? Af hverju var ekki leitað til fagmanns eins og Egils Þorra til að skipuleggja skynsamleg viðbrögð? Viljum við ekki líta á okkur sem siðmenntaða þjóð, sem tekur ákvarðanir byggðar á þekkingu?
Hvítbirnir eru í útrýmingarhættu og full ástæða hefði verið til að leita allra leiða til að hjálpa dýrinu! Ekki skjóta fyrst og HUGSA svo!
Einmana og villtur hvítabjörn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.6.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.9.2007 | 22:29
Indiana Jones auglýsingin
Jæja, eins og þið sáuð kannski í þættinum hennar Sirrýar, "Örlagadeginum", þá er ein útgáfa a.m.k. komin út af Airtel auglýsingunni, sem ég hef sagt frá áður í færslum hér á undan (t.d. hér). Öll atriðin í þessari auglýsingu voru tekin upp inni í einu stærsta og fullkomnasta kvikmyndastúdíói í Film City í Mumbai. Auglýsingarnar eru byggðar á sögunum um Indiana Jones og fer ég með hlutverk Jessicu, þ.e.a.s. ljóskunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.9.2007 | 10:41
Í Örlagadegi Sirrýar
Næstkomandi sunnudag kl. 19:05 verð ég í þættinum "Örlagadagurinn" á Stöð 2, sem hin frábæra sjónvarpskona, Sigríður Arnardóttir eða Sirrý, stjórnar. Þátturinn er sendur út í opinni dagskrá. Þema þáttarins verður dvöl mín á Indlandi en aðeins farið í aðra sálma líka.
Síðan ég kom heim hefur verið mikið að gera, þannig að ég hef ekki ennþá getað sest niður og skrifað lokabloggið um ferðina mína eins og ég ætlaði að gera. Er samt ennþá með það á stefnuskránni að gera einhverskonar samantekt, kannski í nokkrum færslum.
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2007 | 03:57
Komin heim
Fyrsta hindrunin þegar út á flugvöllinn var komið var að skrá sig inn og fylla út ítarlegt eyðublað, en Indverjar eru ennþá mikið fyrir allskyns óþarfa skriffinnsku. Sjálfsagt hef ég litið eitthvað aumingjalega út því fyrr en varði vatt indverskur herramaður sér að mér og bauðst til að hjálpa mér að fylla eyðublaðið út. Kom í ljós við eyðublaðsútfyllinguna að hann býr í sömu götu og ég bjó í. Síðan leiðbeindi hann mér um flugvöllinn og að lokum bað hann mig um tölvupóstfangið mitt. Kosturinn við tölvupóstinn er að maður þarf ekkert að svara honum frekar en maður vill. En það er dálítið merkilegt hvað karlmenn bæði á Indlandi og í Englandi ganga hreint og beint til verks m.v. þá íslensku, hvað varðar að biðja mann um kontakt upplýsingar. Er að spá í að láta prenta fyrir mig nafnspjöld næst þegar ég fer út; tvær útgáfur, eina með réttum upplýsingum og aðra fyrir þá sem maður hefur engan áhuga á að kynnast frekar.
Eftir lendinguna á Heathrow, fór ég strax að sækja töskurnar mínar. Fór á færiband nr. 8, þar sem stóð skýrum stöfum Bombay og beið þar í drykklanga stund eða þangað til að enskur strákur, sem var í sömu vél og ég kom til mín og benti mér á að töskurnar úr vélinni okkar væru á færibandi nr. 1. Síðan bauðst hann til að fylgja mér frá terminal 3 til terminal 1, sem ég þáði með þökkum. Mjög vingjarnlegur náungi sem bauð mér upp á kaffibolla þegar á terminal 1 var komið og spjölluðum við um heima og geima um stund. Og að sjálfsögðu bað hann mig um tölvupóstfangið mitt áður en við kvöddumst.
Eftir að hafa kíkt á brottfararskjá til að átta mig á stöðu Icelandair vélarinnar fór ég að kíkja í búðir. Eitthvað gleymdi ég mér í búðarápinu, því næst þegar ég kíkti á skjá sá ég mér til skelfingar að í töflunni stóð með rauðum stöfum "Gate Closed" við hlið nr. 40, þar sem vélin mín var.
Eftirleikurinn var eins og ég væri að leika í grínmynd, þar sem allt gengur á afturfótunum. Í algjöru sjokki byrjaði ég að hlaupa í átt að hliðinu, en taskan mín var opin þannig að dótið dreifðist úr henni. Safnaði ég því saman með aðstoð fólks sem var í kringum mig og svo byrjaði ég að hlaupa aftur og enn hafði ég ekki lokað henni nógu vel, þannig að sagan endurtók sig. Þegar ég hafði safnaði dótinu mínu aftur og lokað töskunni tryggilega í þetta sinn með aðstoð hjálpsamrar konu, tók ég sprettinn aftur, þangað til að ég varð að hægja á mér þar sem ég var alveg komin í spreng, enda taskan níðþung. Og hvað haldið þið að hafi gerst þá? Jú, einhver karlklaufi kemur hlaupandi á harða spretti og hleypur mig niður, þannig að ég misst allt dótið mitt eina ferðina enn.
Þegar ég loks komst í hliðið, þá var verið að bíða eftir mér og allir komnir inn. Munaði mjög litlu að ég missti af fluginu. Á heimleiðinni sat ég hjá 2 indælum konum, sem voru að koma úr golfferð ásamt 30 öðrum íslenskum konum.
Þegar ég loks komst út um græna hliðið framhjá herskara tollvarða (ætli Ísland sé eina landið í heiminum þar sem tollverðir standa í græna hliðinu?), biðu eftir mér pabbi og mamma, Þórður Örn litli bróður minn og Íris vinkona sem færði mér rós. Það voru miklir gleðifundir.
Þetta er líklega ekki lokabloggið mitt um ferðina mína, því mér finnst ég eiga svo margt skemmtilegt ósagt ennþá, en það kemur í ljós fljótlega.
Bloggar | Breytt 14.9.2007 kl. 02:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.8.2007 | 03:55
Kveðjudagurinn
Jæja, þá er ég að fara fljúga heim. Legg í loftið héðan frá Mumbai til London kl. 12:30 á indverskum tíma (7:00 á íslenskum tíma), en það flug tekur um 9 klst. og ætla ég að reyna að sofa megnið af þeim tíma. Síðan tek ég kvöldvél Icelandair heim og verð lent rétt fyrir miðnætti.
Tíminn hefur heldur betur flogið hérna hjá mér, enda alltaf haft nóg fyrir stafni. Síðustu dagar hafa ekki verið nein undantekning frá því. Kláraði fyrir helgi tökur fyrir bíómyndina sem ég sagði frá hér og hér. Í fyrradag byrjaði ég að kveðja vini mína hér, sem eru orðnir ansi margir. Fór út að borða með vinum í hádeginu á Marriot (sjá hér) og um kvöldið á Myst, sem hefur verið uppáhalds resturantinn minn hérna. Í gær reyndi ég svo að gera allt klárt fyrir ferðina heim, pakka og ganga frá ýmsum lausum endum. Fór í smá verslunarleiðangur og hélt svo áfram að kveðja vini yfir málsverði, fórum á Golden Dragon sem er á Taj hótelinu miðbæ Mumbai og síðan á stað sem heitir Indigo, en þar er maturinn sennilega bestur. Síðar um kvöldið hóaði ég saman vinum á stað sem heitir Olive sem er í nágreni Eskimó-hússins og áttum við þar góða stund saman. Það er alltaf leiðinlegt að kveðja góða vini, en ég sagði öllum að ég kæmi aftur í janúar, svo ég þyrfti nú ekki kveðja þá eins og ef um hinstu kveðju væri að ræða.
Ég stefni svo að því að koma með loka blogg um ferðina mína fljótlega eftir að ég er komin heim ásamt því að bæta við fleiri myndum. Hlakka til að sjá ykkur öll!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2007 | 04:19
Afmælið mitt og fleira skemmtilegt
Föstudaginn 10. ágúst, varð ég loks lögráða; sjálfráða, fjárráða og með kosningarétt skv. lögum Lýðveldisins Íslands. Sem sagt mér er hér eftir treyst af samfélaginu til alls sem fullorðin meðlimur þess, ef frá er talið að ég má ekki fara í ríkisáfengisverslun og kaupa mér eins og eina hvítvínsflösku. Af þessu tilefni ákvað ég að halda smá afmælisteiti sl. föstudagskvöld. Það var úr vöndu að ráða, því ég hafði ekki mikinn tíma til undirbúnings, þar sem ég var búin að vera við sjónvarpsauglýsingatökur fyrir Airtel alla vikuna. Þessar tökur voru mjög skemmtilegar, en þar fer ég með hlutverk Jessicu úr sögunum um Indiana Jones. Lenti m.a. í slagsmálasenum, þar sem ég kýldi einn gaur í rot, var kefluð í stól, þar sem nasisti var að pynta mig og hótaði m.a. að plokka augun úr mér, bundin við staur með Indiana Jones með eldhaf í kringum okkur, Indiana Jones að bjarga mér úr kviksyndi og kom ríðandi á hesti inn í settið, svo eitthvað sé nefnt. Segi kannski nánar frá þessu síðar.
En aftur að afmælisveislunni minni. Það sem bjargaði mér í tímaleysinu hvað undirbúninginn varðar, var að einn af kunningjum mínum hér, Dilawar að nafni, bauðst til að sjá um veisluna fyrir mig. Dilawar þessi á Park Plaza hótelið hérna í Mumbai (sjá lýsingu um það hér og myndir hér) sem er rosalega flott 5 stjörnu hótel, með öllum lúxus sem hægt er að hugsa sér, t.d. líkamsræktarstöð, spa, flottum garði með tveimur sundlaugum, manngerðri strönd og 18 holna keppnisgolfvelli sem er flóðlýstur á kvöldin. Ekki nóg með að hann byðist til að halda veislunni á hótelinu sínu, heldur fékk ég líka að gista á lúxussvítu á hótelinu hans bæði nóttina fyrir og eftir afmælisveisluna. Sótti hann mig og Karishmu, áströlsku samstarfs- og vinkonu mína á fimmtudagskvöldið, þar sem við vorum ásamt öllum helstu Bollywood stjörnunum í einkaveislu á Enigma skemmtistaðnum á JW Marriot hótelinu sem haldin var af Atul Kasbekar, sem er einn frægasti ljósmyndari Indlands. Þegar við settumst inn í bílinn hans færði hann mér afmælisgjöf, sem var forláta Samsung sími, sem er örugglega sá þynnsti á markaðnum í dag.
Eftir góðan morgunverð á föstudagsmorgninum fengum við til afnota flottan bíl með bílstjóra og fórum við og kíktum í verslanir. Síðan var slakað á í Spa'inu á hótelinu, fékk frábært klukkutíma nudd og því til í slaginn fyrir kvöldið. Þess má geta að ég er eiginlega orðin háð nuddi hérna á Indlandi, þetta er svo rosalega notalegt og kostar lítið sem ekkert.
Veislan fór fram í einum sundlaugagarði hótelsins og var boðið upp á flotta þjónustu af her þjóna og æðislegar veitingar, góðan mat og drykki eins og hver gat látið ofan í sig. Og rúsínan í pylsuendanum var náttúrulega súkkulaðiafmæliskaka, en eins og þeir sem þekkja mig vita get ég illa staðist góðar súkkulaðikökur. Síðan var dansað og trallað fram eftir undir stjórn DJ sem hótelið skaffaði. Gistum við stelpurnar svo á svítu um nóttina og svo var haldið heim á laugardagseftirmiðdag, eftir að hafa fengið gott nudd. Sem sagt, þetta var meiriháttar afmælisdagur!
Bloggar | Breytt 15.8.2007 kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.8.2007 | 16:41
Engin stórflóð hér í Mumbai
Vegna frétta um alvarleg mannskæð flóð hérna á Indlandi, þá vil ég að það komi fram að ekkert hættuástand hefur skapast hér í Mumbai. Hérna á vesturströndinni hefur monsún-tímabilið verið svona nokkurn veginn samkvæmt venju, en eins og ég sagði frá í þessari færslu hér urðu mannskæð flóð hérna fyrir tveimur árum síðan. Ástandið er víst alvarlegt núna í Suður-Indlandi og Norð-austur héruðum Indlands, t.d. í Patna, þar sem myndin með frétt Morgunblaðsins var tekin. Annars skilst mér að ástandið sé jafnvel enn verra í Bangladesh, Nepal og sennilega verst í Kína.
Síðan ég kom hingað í byrjun júní, hefur rignt flesta daga, stundum stanslaus rigning allan daginn og þá veður maður sumar götur hér vel upp fyrir ökkla (sjá myndina hér til hliðar sem var tekin sl. föstudag), en svo koma dagar, þar sem dembur koma inn á milli og þá er ég ekki að tala um neinar smá dembur, því það er stundum þannig að það er eins og maður hafi fengið heila sundlaug yfir sig. Ég hef ekkert látið þetta á mig fá, hef oft lent í þessu án regnhlífar og verð þá að sjálfsögðu gegnblaut á svipstundu, en það er ekkert svo vont þegar hitastigið er í kringum 30 gráðurnar eins og það er yfirleitt hér. Svo koma stundum dagar þar sem ekkert rignir og sést jafnvel aðeins til sólar, en lengsta hléið varði alveg í 10 daga, ef ég man rétt.
Þessar miklu rigningar hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á allt hér, bæði jákvæð og neikvæð. Þær eru undirstaða þess mikla landbúnaðar sem hér er stundaður, en jafnframt helsta ógnin við hann þegar þær fara úr hófi eins og gerst hefur nú á ákveðnum svæðum. Þetta er hins vegar versti tíminn fyrir þann bransa sem ég er í, þar sem fólk forðast að setja stór verkefni í gang. Mikið er um að tökum sé frestað vegna rigninga, sem oft setur allar tímaáætlanir úr skorðum. Ég lenti t.d. í því í morgun að þurfa að mæta á tökustað í Film City, vegna Airtel sjónvarpsauglýsinganna, sem ég sagði frá hér, kl. 5 í morgun, en þurfti að bíða til klukkan 3 í eftirmiðdaginn þangað til kom að mér. Það var reyndar ekki bara rigningadembum að kenna, heldur einnig skipulagsleysi, sem er algengt vandamál hér um slóðir. Þessar tökur fyrir Airtel hafa annars verið mjög skemmtilegar; auglýsingarnar eru í anda India Jones, með fullt af spennu- og áhættuatriðum. Segi ykkur nánar frá því síðar.
Hérna er svo stutt videó sem gefur ykkur smá sýnishorn af alvöru rigningu hér í Mumbai:
Ath: Ef þú vilt sjá fleiri skyld videó, þá getur þú smellt á myndir sem birtast neðst, þegar þetta videó er búið.
Yfir 2.000 látnir í flóðunum í Suður-Asíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.8.2007 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)