Færsluflokkur: Bloggar

Æðislegur útreiðartúr í fjöllum Indlands

Anna, Rebekka og BryndísEinn af fjölmörgum vinum sem ég hef eignast hér á Indlandi, Biren að nafni bauð mér í frábæra hestaferð sl. miðvikudag.  Tók ég Önnu og Rebekku með, sem eru nýju stelpurnar frá Ungverjalandi og fórum við til bæjar sem heitir Mathras, en þar á vinur Birens hestabúgarð.   Mathras er í ca 1,5 tíma fjarlægð frá Mumbai, en við vorum samt u.þ.b. 3 tíma að keyra vegna mikillar umferðar á leiðinni þangað.   

Fljótlega eftir að maður kemur út fyrir stórborgina tekur við mikil náttúrufegurð, gróðri vaxið fjalllendi, sem er ótrúlega fallegt, svo mjög að maður stundum fær bakþanka hvað varðar ofurstolt sitt fyrir íslenskri náttúrufegurð.   Þetta er allt öðruvísi heldur en ég hafði gert mér í hugarlund áður en ég kom til Indlands, hélt að hér væri allt miklu þurrara og flatneskjulegra.   Sem sagt hér er gróskan mikil, allt fagurgrænt, fallegt landslag, fjöll, ár og vötn.

Flott útsýniÞegar á búgarðinn var komið, var ekki staldrað lengi við heldur farið strax á hestbak.  Nokkrir starfsmenn komu með hestana og hjálpuðu okkur á bak, en þeir fylgdu okkur svo alla ferðina, sáu um farangurinn og hjálpuðu okkur með hestana.   Fyrst fékk ég stóran og mikinn dökkbrúnan gæðing, sem var helst til of fjörugur fyrir mig og lét ekkert sérlega vel að stjórn, sem væntanlega var mér að kenna, þar sem ég er nú ekki vön á hestum.   Þó að veðrið hafi verið gott, þ.e.a.s. enginn rigning, þá var plast á hnökkunum til að verja þá gegn bleytu, sem gerði þá hála og auðveldaði það ekki fyrir.    Ég var nokkrum sinnum næstum dottin af baki, en svo fékk ég annan hest, ljósbrúnan öðling, sem var miklu auðveldara að stjórna; sá var eins og hugur minn.   Það var samt sem áður engin trunta, því hann gat heldur betur hleypt úr spori, en við fórum örugglega hátt í 40 km hraða þegar mest lét.

Á fossbrúninniVið riðum fyrst á sléttlendi en síðan fórum við upp í fjöllin.  Stöldruðum fyrst við litla á, þar sem við brugðum okkur út í og óðum, þar til við komum að háum og tignarlegum fossi.  Útsýnið af fossbrúninni var vægast sagt stórkostlegt.   

Þarna var mikið af litlum öpum, svonefndir macaque-apar sem eru um ca 60 sm á hæð og vega fullvaxnir um 15 kg.  Litlu ungarnir voru algjör krútt.

AparSíðan héldum við áfram upp í fjallið, þangað til að við komum í lítið þorp. Það var eins og að koma langt aftur í aldir að koma í þetta þorp.   Þarna var ekkert rafmagn og þar af leiðandi ekkert af því rafmagnsdóti sem fylgir nútímamanninum, engin vélknúin ökutæki (enda ekki fært á bílum þarna upp fjallið) og virtist fólkið þarna lifa algjörum sjálfsþurftar búskapi.   Það var sko ekki stessinu fyrir að fara þarna, svo mikið er víst.   

Læt nokkrar myndir fylgja hér úr ferðalaginu.  Fleiri myndir er svo að finna hér.   Vonast til að bæta fleirum við, en rafhlaðan úr myndavélinni minni kláraðist, þannig að ég náði ekki að taka neinar myndir af hestunum eða í þorpinu.


Icelandic + Cuban = Icecube

Anglo-indverski (afkomendur Indverja sem blönduðust Bretum á nýlendutímanum eru stundum kallaðir þetta) uppistandarinn Russel Peters er einn af þeim betri í bransanum að mínu áliti.   Hér í myndbandinu að neðan gerir hann m.a. grín að mismuninum á að prútta við Kínverja annars vegar og Indverja hins vegar.  Ég er einmitt orðin rosalega góð að prútta hérna í Indlandi og segi kannski nánar frá því í bloggi síðar.   Þá gerir hann grín í myndbandinu um óhjákvæmilega blöndun kynstofna í náinni framtíð og kemst m.a. að því að afkvæmi Íslendings og Kúbana verði kölluð “Icecubes”.  Horfðu endilega á þetta ef þig langar að hlægja aðeins: LoL

Blogga vonandi á morgun um æðislegan útreiðartúr sem ég fór í, í gær. Bless að sinni. Smile


Helgardagbókarfærsla

Helgarnar hérna í Mumbai hjá mér hafa allar verið viðburðaríkar, svo mjög að ég hef yfirleitt alveg gleymt að blogga um þær og ætla ég nú að gera smá bragabót þar á.   Síðustu helgi fór ég m.a. og kíkti á útsölur, fór tvisvar í bíó, tvisvar út í kvöldverð og svo kíkti ég inn á klúbbana China House á Grand Hyatt hótelinu og Poison, sem báðir eru mjög vinsælir hér.  

Eins og ég sagði í þessari færslu hér hef ég kynnst aðallega fólki sem segja má að tilheyri "þotuliðinu" hérna, sem alltaf er að bjóða mér eitthvað dýrt og fínt.   Indverjar, a.m.k. þeir sem tilheyra hástéttinni, virðast almennt vera mjög opnir og alúðlegir og á það ekki síst við ef maður ber saman við okkur Íslendinga.   Stundum finnst mér þeir vera með sýndarmennsku eða svona nýríkra takta, þar sem boðið er stórt og mikið og fær maður óhjákvæmilega á tilfinninguna að verið sé að reyna við mann en svo kynna þeir manni fyrir konunni sinni, sem er mikill léttir.   Rétt er að það komi fram að Indverjar eru a.m.k. á yfirborðinu mjög siðvandir, t.d. fer það fyrir brjóstið á mörgum að sjá mann á hlýrabol, ef sést í brjóstskoru eða ef maður er í stuttum kjól (reyndar allt í lagi þó maginn sé ber).   Á skemmtistöðum hef ég séð dyraverði vísa fólki á dyr sem hefur gerst of nærgöngult við hvort annað, sem sagt kossaflens eða vangadans er ekki vel séð hér.  

Á meðal þess sem mér var boðið um helgina og ég hef ákveðið að þiggja er heimsókn í hestabúgarð, þar sem ætlunin er að ríða út á gæðingum og svo ferð til Jaipur, þann 11. ágúst n.k. degi eftir afmælisdaginn minn.   Jaipur, stundum kölluð "Bleika borgin", sem hlýtur  þ.a.l. að eiga vel við mig Smile, er ein fjölsóttasta ferðamannaborgin á Indlandi og er hluti þess sem kallað er "Gullni þríhyrningurinn", ásamt Delhi og Agra.   Hún er sögð vera ein fegursta borgin á Indlandi, með helling af merkum byggingum; höllum, kastölum og virkjum.   dorrit-olafurÉg hlakka mjög til að fara, enda ferðalög eitt af mínum helstu áhugamálum.    Ég vonast til að við förum líka til Agra, sem er ekki langt frá, en þar er einmitt eina frægustu byggingu heims að finna, Taj Mahal, sem ég hef alltaf stefnt að fara að sjá, fyrst ég er á annað borð hér á Indlandi.   Þess má geta að farið verður á einkaþotu og má ég bjóða með mér vinkonum mínum.   

En aftur að helginni.   Það var dálítið fyndið að ég hitti tískuhönnuðinn fræga Rocky S, sem ég er að fara að vinna fyrir, bæði kvöldin, á China House og Posion.   Þegar ég kom inn á China House, kallaði hann yfir salinn að þarna væri módelið hans og bað mig að koma til sín, þar sem hann faðmaði mig að sér og sátum við hjá honum og hans liði í nokkra stund.   Mjög elskulegur náungi, en eins og flestir í hans geira þá er hann samkynhneigður.   Fyrr um laugardagskvöldið fórum við stöllur, Karishma sem er frá Ástralíu og þær ungversku Anna og Rebekka, sem eru nýkomnar hingað, út að borða á stað sem heitir Myst.   Þetta er orðinn einn af mínum uppáhalds veitingastöðum, mjög fínn og góður matur, ítalskur, indverskur og kínverskur.    Í þetta skiptið fengum við okkur í forrétt ristað brauð með 3ja osta sósu, sem var frábær; síðan grænt pasta sem var ekkert smá gott og svo fékk ég mér súkkulaðiköku og ís í eftirrétt, en hinar ekki neitt, því þær eru í megrun.   Og ekki skemmdi það að við þurftum ekkert að borga fyrir matinn, þar sem Karishma þekkir eigandann, sem settist hjá okkur og spjallaði í smá stund.  

Læt staðar numið að sinni, hef vonandi frá einhverju skemmtilegu að segja fljótlega.


Má bjóða þér kampavínspípu?

Ég hef farið á nokkur kaffihús hér í Mumbai, þar sem boðið er upp á að reykja vatnspípur.   Eftir að hafa rannsakað málið aðeins með aðstoð Google, þá komst ég að því að þetta er tiltölulega ný tískubóla ekki bara hér heldur einnig í Evrópu og Bandaríkjunum.   Líklega berst þetta ekki til Íslands héðan af, þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að banna lýðnum að reykja á veitingastöðum.   Ég vil taka það fram að í eigingirni minni þá er ég ánægð með þetta framlag forræðissinnaðra stjórnmálamanna (þrátt fyrir að ég þoli ekki slíka stjórnmálamenn),  því mér hefur alltaf fundist reykingar ógeðslegar og það versta við að fara á veitingastaði hefur verið að anga á eftir af reykingalykt.    

hookhaEn aftur að vatnspípunum.   Ég sagði hér að ofan að um tískubólu væri að ræða, sem er kannski ekki alveg rétt, hvað Indland varðar, því vatnspípan er upprunnin héðan og á sér víst sögu eitthvað aftur í aldir.   Hún er kölluð hookha og virkar þannig að kveikt er upp í tóbaki eða jurtum og reykurinn síaður í gegnum vatn, a.m.k. er það algengast.   Það sem vakti athygli mína á einu kaffihúsinu, var að hægt var að fá sér vatnspípu, þar sem boðið var upp á ýmsar ávaxtabragðtegundir og á einum stað var boðið upp á kampavín í stað vatns.   Reynt var að telja mér trú um að það væri ekkert óholt að reykja jurtir í gegnum kampavín, þar sem um ekkert nikótín væri að ræða eða önnur eiturefni sem fylgja brennslu tóbaks.   Ég tók reyndar ekkert mark á því, því reykur er jú reykur og það getur varla nokkurn tímann verið holt að anda að sér reyk; það segir sig sjálft, er það ekki?


Sitt lítið af hverju

Ekki virðist hugleiðslan hafa hjálpað mér að vera duglegri við að blogga, en þegar ég sest niður og ætla að skrifa eitthvað þá hefur allt verið stíflað.   Ef ég á að vera alveg heiðarleg, þá hefur þetta ekkert með hugleiðslu að gera, enda hef ég ekki stundað hana síðan ég kom úr ferðinni til Pune og sagði frá hér.    Hin raunverulega ástæða er að ég hef lítið verið heima að undanförnu og þegar ég loks kem heim að þá er ég þreytt og syfjuð.   Eins og er, er ég eina íslenska stelpan hérna í Eskimó íbúðinni, var um stuttan tíma alein en svo komu tvær ungverskar stelpur, sem tala ekki einu sinni ensku.    Ég hef hins vegar eignast helling af vinum, aðallega fólki úr elítunni hérna, sem er alltaf að bjóða mér út að borða, í partí o.s.frv.   Farið er með mig eins og prinsessu hérna,  ekið um á lúxusbílum með einkabílstjórum og allir mjög indælir við mig.   Mér var meira að segja boðið að fara með hópi til Singapore, en ákvað að afþakka gott boð eftir smá umhugsun.    Ríka fólkið hérna er mjög ríkt, lætur sér ekki muna um að kaupa flösku af Dom Perignon kampavíni, sem kostar meira heldur en meðalárslaun hérna í Mumbai.   Misskiptingin hér er sem sagt rosalega mikil.

Þá hefur þrátt fyrir monsoon-tímabilið (sjá færslu hér) verið nóg að gera í vinnunni, fór t.d. í 3 prufur í gær og í eina í dag fyrir kvikmynd, þar sem um eitt af aðalhlutverkunum var að ræða.    Mér er sagt að langminnst sé að gera á þessum tíma árs,  þegar monsoon stendur yfir (júní - september) og er 180px-Airtel-logo.svg verkefnum líka oft frestað vegna mikilla rigninga.    Einnig var ég í smá undirbúningi í dag útaf sjónvarpsauglýsingu fyrir Airtel, en þær tökur taka fjóra daga og valda því að ég verð að fresta heimkomunni um einhverja daga (reyndar ekki heldur búin með bíómyndina Stardust sem ég sagði frá hér og hér).    Skv. Wikipedia er Airtel á meðal stærstu símafyrirtækja á Indlandi með yfir 40 milljónir viðskiptavina og eitt af þekktari vörumerkjunum í Indlandi, þannig að það er dálítið spennandi að fá að leika aðalhlutverk í sjónvarpsauglýsingu fyrir svona þekkt og stórt fyrirtæki.  

Ég fékk jákvætt svar samdægurs í gær úr einni prufunni, sem eru myndatökur fyrir Rocky S, sem er einn aðal tískuhönnuðurinn hér á Indlandi og einnig mjög vinsæll sem búningahönnuður fyrir kvikmyndir.   Hann er stundum kallaður "Gucci" eða "Dior" Indlands, en hann hannar mjög "elegant" föt eins og sjá má t.d. hér.    Þess má geta að hönnuðurinn stjórnaði sjálfur prufunni.  

Ekki er ég bjartsýn varðandi áheyrnaprófið í dag fyrir kvikmyndina.  Um var að ræða eitt aðalhlutverkið, sem á að vera bresk gella, sem á þ.a.l. að tala með breskum hreim.   Það sem gerir líkurnar enn minni fyrir mig er að ein sem var að keppa um hlutverkið er ensk og hefur því "Oxford-hreiminn" á hreinu.   Ég er sem sagt ekkert sleip í breska framburðinum og þar að auki þá þurfti ég að læra utanbókar heilt A4 blað af texta.   Það tókst ekki alveg, þ.e.a.s. ég gleymdi síðustu setningunum.   Nú er bara að fara að hlusta á BBC World Service á fullu og herma svo eftir eins og páfagaukur.   Smile


Indversk sjónvarpsauglýsing í sundlaug

Mér var bent á að komin væri á YouTube sjónvarpsauglýsing fyrir indverskt fjarskiptafyrirtæki sem ég tók þátt í og sagði frá hér. Líklega bjuggu þeir til fleiri auglýsingar, því við vorum ansi lengi í lauginni og teknar voru mismunandi útfærslur. Ekki veit ég hvað kallarnir eru segja þarna, enda á hindi, en það á greinilega að vera eitthvað voða fyndið.  LoL


Klukkuð af Steinunni Camillu

Steinunn Camilla klukkaði mig um daginn eins og sjá má hér, en skv. því á ég að segja 8 hluti um sjálfa mig og klukka síðan 8 aðra.   Verst að mér sýnist ég vera orðin svolítið sein með þetta því það virðist þegar búið að klukka flesta bloggvini mína, en sjáum til.  

Hér koma 8 atriði um mig:

  1. Ég er í Borgarholtsskóla á verslunarbraut og stefni á stúdentspróf eftir 2 ár
  2. Vildi bara eiga bleik föt og bleik húsgögn þegar ég var lítil og lita með bleikum litum
  3. Ég var skyggn þegar ég var lítil, sá álfa, dverga, drauga og lék mér að ljósi sem enginn sá nema ég
  4. Elska að baka og borða góðar kökur
  5. Les nær eingöngu Harry Potter/Fíla Harry Potter í botn           
  6. Ég get ekki sungið en hef samt gaman af því að syngja
  7. Elska það að dansa og hef æft jassballett svo hef ég líka æft badminton og prófaði golf eitt sumarið þegar ég var lítil.
  8. Mér finnst æðislegt að fara upp í sumarbústað og slappa af í heitapottinum

Ævintýraferð til Pune

Eins og fram kemur í færslunni hér á undan dvaldi ég á hugleiðslumiðstöð (e. meditation resort) um helgina.   Þetta var í borg sem heitir Pune, sem er önnur stærsta borgin á Maharashtra fylkinu, á eftir Mumbai, með "aðeins" 4,5 milljónir íbúa, þ.e.a.s. innan við fimmtung af íbúum Mumbai.  Borgin er á hásléttu sem heitir Deccan og er 560 metra yfir sjávarmáli, sem gerir loftslagið svolítið öðruvísi heldur en niður við ströndina; mun ferskara, sérstaklega á kvöldin.  Hún er stundum kölluð "Oxford Indlands", þar sem í henni eru margir af bestu háskólum Indlands og hér er einnig mikið um hátækniiðnað, t.d. mörg hugbúnaðarfyrirtæki og þá er þetta helsta bílaframleiðslusvæði Indlands.   Pune er mjög frábrugðin Mumbai, hérna er mun hreinna og andrúmsloftið betra.  Veðrið var gott alla helgina, sól og þægilegur hiti, utan einn morgunin sem rigndi aðeins.

PíramídinnHugleiðslumiðstöðin sem við fórum í er hreint út sagt frábær og á ég varla til nógu sterk orð til að lýsa hrifningu minni yfir henni.   Byggingarnar eru ægifagrar, gestahúsið eins og flott 5 stjörnu hótel, hugleiðslubyggingin er píramídi úr svörtum marmara og síðan er garðurinn sá allra fegursti sem ég hef nokkurn tímann séð.   Þá var allur aðbúnaður og þjónusta eins og best gerist, sem sagt allt tipp topp og fyrsta flokks.

amazing1Mér fannst það dálítið sérstakt, þegar við vorum að skrá okkur inn var tekið HIV/AIDS próf af okkur öllum, en neikvæð útkoma úr slíku prófi er víst skilyrði fyrir inngöngu í miðstöðina.  Tekin var blóðprufa og eftir ca korter var niðurstaðan komin.    Síðan urðum við að kaupa okkur sérstaka kufla, einn vínrauðan fyrir dagfundina og svo hvítan fyrir kvöldfundina.   Ef maður ætlaði að taka þátt í "silent meditation" varð maður að auki að kaupa hvíta sokka.  Og ef maður vildi nota sundlaugina í garðinum, þá varð maður að kaupa sérstök vínrauð sundföt.   Ég ákvað að sleppa því, enda fannst mér þau ekkert falleg.

bhall_1Boðið var upp á mjög margar hugleiðsluaðferðir, miklu fleiri heldur en ég vissi að væru til, nokkrar þar sem svona hefðbundnar hugleiðslustellingar voru notaðar, aðrar þar sem dans var notaður og svo var einhver hópur þarna, þar sem fundirnir gengu einn daginn út á að hlæja og hinn daginn að gráta í heila 2 klukkutíma.   Það var dálítið sérstak að koma inn í hugleiðslupíramídann, þar sem allt fólkið var í eins kuflum og þvílíka ró og friðsæld hef ég aldrei upplifað.   Ég reyndar lenti í smá veseni á fyrsta hugleiðslufundinum, því ég var með kvef og gat ekki haldið í mér hóstanum.  Að hósta var eðlilega stranglega bannað og ég var vinsamlega beðin um að yfirgefa svæðið hið snarasta.   Betur gekk á næstu fundum, nema hvað mér fannst rosalega erfitt að halda mér vakandi á meðan hugleiðslunni stóð og fann ég til mikillar þreytu í lok hvers fundar.   Hver fundur stóð yfirleitt í 1 klst nema hvað kvöldfundirnir voru í 2,5 klst.

zeng_2Gestirnir þarna komu víða að úr heiminum og hitti ég m.a. ástralska konu sem talaði íslensku, en hún dvaldi einu sinni á Íslandi í eitt ár.   Athyglisvert var hvað fólk var alúðlegt þarna, allir alltaf faðmandi alla og allir rosalega glaðir.   Það var eiginlega hálf óþægilegt í byrjun hvað allir voru ofur vingjarnlegir en svo vandist það og manni fannst það mjög þægilegt.

Sem sagt þetta var frábær reynsla og er ég Ástu hjá Eskimó mjög þakklát fyrir að hafa farið með okkur.   Ég er mikið að spá í að fara aftur ef ég mögulega get við fyrsta tækifæri.


Farin í hugleiðslu

180px-Maharishi_Mahesh_Yogi_2Í dag fer ég til Pune, sem er stór borg um 150 km frá Mumbai, í þeim tilgangi að læra hugleiðslu.  Ásta hjá Eskimó fer með okkur og verðum við yfir helgina - sem sagt verð ekkert á netinu um helgina.  Ég hlakka mjög til enda aldrei prófað hugleiðslu, en eins og flestir vita kannski þá eru Indverjar í fararbroddi á því sviði.   Frægt var þegar Bítlarnir fóru til Indlands í gamla daga, til þekktasta gúrúsins á þessu sviði, Maharishi Mahesh Yogi.  Ef marka má þessa grein hér, voru þeir í 56 daga á Indlandi og sömdu á þeim tíma hvorki fleiri né færri en 48 lög, þar af mörg af þeirra bestu lögum.   Ég vona að ég öðlist a.m.k. brot af þeim sköpunarkrafti, þannig að ég verði í það minnsta aðeins duglegri að blogga á eftir.  Smile

Bendice - Nýja nafnið mitt samkvæmt Bombay Times

Eins og ég minntist á í færslunni hér á undan þá birtist mynd af mér í Bombay Times sl. sunnudag.  Þetta blað fylgir með Times of India sem er útbreiddasta dagblaðið í heiminum sem gefið er út á ensku, en það er selt í 2.6 milljónum eintaka á hverjum degi.  Já tölurnar geta verið stórar hérna á Indlandi, enda býr hér u.þ.b. milljarður manns og Mumbai (eða Bombay eins og flestir hér kalla borgina ennþá), stærsta borgin með ca 20 milljónir íbúa.

BendiceMyndin var tekin á skemmtistað sem heitir Enigma, sem er á JW Marriot hótelinu hérna í nágreninu.  Þetta er víst heitasti staðurinn sem kvikmyndastjörnur og annað frægt fólk sækir hér.   Eins og þið sjáið, þá er farið vitlaust með nafnið mitt í myndtextanum, sem sagt Bendice heiti ég skv. Bombay Times (gæti verið stytting á t.d. "Bend over Iceland" Smile).   Ekki veit ég hvernig ljósmyndarinn fékk þetta nafn, en allir vinir mínir sem voru með mér þarna neita að kannast við að hafa gefið honum nafnið mitt.   Ekki þekki ég kallana sem ég var að spjalla við þegar myndin var tekin.   Ég veit þó að þessi hægra megin (Sanjay Adhikari) er yfirmaður Delhi skrifstofu fyrirtækis sem heitir Stance sem er víst stórt í skemmtanabransanum hér; framleiða kvikmyndir, eru umboðsmenn leikara og fyrirsætna o.fl.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband