Færsluflokkur: Bloggar
11.7.2007 | 13:12
Í byssubardaga...
Jæja, ég er ekki búin að blogga lengi um hvað drifið hefur á daga mína og er verð ég að viðurkenna að um leti er um að ræða. En þar sem allir eru að hvetja mig til að blogga meira ætla ég að reyna að standa mig aðeins betur.
Á föstudaginn sl. var annar dagurinn minn við tökur á bíómyndinni Stardust, þar sem ég leik lífvörð mafíósa. Í einni senunni var um að ræða byssubardaga, þar sem ég hleypti af púðurskotum úr alvöru byssu. Þetta var mjög spennandi, þó svo að ég hafi aldrei verið spennt fyrir byssuleikjum eða öðrum týpískum strákaleikjum. Þess ber að geta ég hafði aldrei handleikið alvöru skammbyssu áður og var það svolítið sérstakt og ógnvekjandi að ímynda sér að vera að skjóta á aðrar manneskjur.
Heilt yfir þá gekk þessi tökudagur eins og í sögu og held ég svei mér þá að þetta eigi bara vel við mig. Og held ég að leikstjórinn sé bara nokkuð sáttur við mig, því hann hringdi um kvöldið og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að leika í mynd sem hann byrjar á í september. Ég sagði honum að ég gæti það ekki, því þá væri ég farin heim til Íslands og skólinn tæki við og benti honum svo á að tala bara við Eskimo Models.
Helgin var nokkuð viðburðarík; fór í flotta afmælisveislu hjá vini Tarun (aðalleikarinn í Stardust); fór á markað og keypti alveg helling af dóti; fór á Enigma á laugardagskvöldið, sem er staðurinn þar sem fræga fólkið hérna sækir helst; mynd birtist af mér í stærsta dagblaði Indlands o.fl. Segi nánar frá þessu í færslum hér síðar.
Bloggar | Breytt 16.7.2007 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.7.2007 | 22:47
Komin með indverskt lag á heilann!
Það hefur svo sem gerst áður að maður hafi fengið sumarsmelli á heilann í útlöndum en ég bjóst nú ekki við að það gerðist hér á Indlandi. Sem sagt ég er komin með indverskt lag á heilann, sem ég raula við öll tækifæri núna, þ.e.a.s. viðlagið sem er á ensku. Lagið heitir Ganpat og er úr nýlegri Bollywood bíómynd sem heitir Shootout At Lokhandwala (sjá hér um myndina á Wikipedia) og er byggð á mjög frægu máli eða kannski öllu heldur "sönnum orðrómi" um glæpaklíku og spillingu innan lögreglunnar hér í Mumbai. Lokhandwala er staðurinn þar sem myndin gerist og er hann aðeins í 5 mínútna fjarlægð frá þar sem ég bý.
Bloggar | Breytt 11.7.2007 kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2007 | 03:23
Orðin leikkona...
Nei ég segi svona, en ég fór í minn fyrsta tökudag fyrir bíómyndina Stardust í dag, en skv. planinu þá verða þetta 5-6 tökudagar fyrir mitt hlutverk. Áður en ég fór hingað til Mumbai á vegum Eskimo Models, reiknaði ég með að fást aðallega við týpísk fyrirsætustörf, en nú er ég búin að vera hérna í rúmar 3 vikur og þegar búin að taka þátt í þremur Bollywood bíómyndum, sem er verð ég að segja mjög skemmtileg reynsla. Og svo er ekki verra að þetta eru allt saman myndir sem eru líklegar til vinsælda því í þeim leika topp leikarar.
Í Stardust leik ég á móti leikara sem heitir Tarun Khanna (sjá mynd), sem er mjög þekktur hér á Indlandi og upprennandi stórstjarna, að því er mér er sagt. Allavega varð Enakshi, en hún er framkvæmdastjóri Eskimo skrifstofunnar hérna, rosalega spennt þegar ég var beðin um að leika á móti honum.
Í dag þurfti ég að fara með ca 10 línur. Var mjög stressuð fyrst um morguninn, þar sem ég er nú enginn pró í ensku. En stressið hvarf fljótt og var ég ekki neinum vandræðum með að muna línurnar mínar. Sem sagt, þetta gekk bara nokkuð vel og heyrði ég að leikstjórinn vilji fá mig í fleiri myndir. Alltaf gaman að fá hrós, en sumir sögðu að ég væri fædd með leikhæfileika, þó svo að ég vilji meina að ég sé hörmuleg leikkona, enda aldrei stefnt á þá braut.
Hlutverkið sem ég leik er svaka kúl gella sem er lífvörður mafíósa, sem aðalleikarinn Tarun leikur. Í myndinni hér til hliðar sjáið þið mig í búningnum, sem er all svakalegur eða hvað finnst ykkur?
Ég var nú ekkert voðalega sátt við "make-up artistana", en á mig var sett þykkt lag af appelsínugulu meiki og þegar ég reyndi að dreifa aðeins úr því komu bara hvítar rákir. Því meira sem ég reyndi að laga það, því verra varð það og verð ég að segja að mér leið hálf illa með þessi ósköp framan í mér. En hvað veit ég svo sem um make-up fyrir kvikmyndatöku.
Að tökum loknum í dag, bauðst Tarun Khanna til að skutla mér heim, sem ég þáði en það var um klukkutíma akstur frá tökustað. Á leiðinni sagði hann mér hálfa ævisöguna sína og svo vildi hann endilega bjóða mér út að borða; greinilega vel þjálfaður "playboy". Ég afþakkaði það, sagðist ekki vera neitt svöng, en samt enduðum við á Pizza-hut. Hann var auðvitað á "diet", eins og flestir strákarnir hérna í þessum bisness, fékk sér bara hvítlauksbrauð á meðan ég torgaði einni pizzu. Að því loknu skutlaði hann mér svo heim; indælis náungi annars.
Þegar heim var komið loksins og ég að deyja úr þreytu, sagði ein konan hér á skrifstofunni að ég þyrfti að færa mig um herbergi, reyndar í stærra og það helst strax, því annars yrði hún að vekja mig eldsnemma í fyrramálið, sem var ekki mjög freistandi kostur.
Síðar um kvöldið fórum við stelpurnar svo út að borða á stað sem heitir Little Italy. Þetta var kveðjukvöldverður fyrir Evu, sem er að fara heim til Íslands. Í fáum orðum sagt þá var þetta hörmulegur staður. Starfsmennirnir gátu ekki slitið af okkur augum allan tímann, eins og við værum úr öðrum heimi, sem má svo sem til sanns vegar færa. Síðan var þjónustan slök, tók langan tíma og loks þegar maturinn kom þá var hann kaldur. Sem sagt þetta er staður sem við förum nær örugglega aldrei aftur á.
En meira síðar!
Bloggar | Breytt 5.7.2007 kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2007 | 02:44
Nýja gæludýrið mitt :-)
Langaði að sýna ykkur mynd af "gæludýrinu" mínu, sem er búið að vera í herberginu mínu síðustu 2 daga. Þetta er lítil sæt eðla eða öllu heldur salamandra. Mér tókst eftir ansi margar tilraunir loks að veiða hana í Pringles dollu og skilaði ég henni svo aftur út í náttúruna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 22:21
Hótel JW Marriot í hádeginu
Í nágreni okkar er 5 stjörnu glæsihótelið JW Marriot, þangað sem við stöllur förum stundum að borða í hádeginu. Þar er boðið upp á risastórt hlaðborð, sem maður getur hlaðið í sig af að vild og að auki getur maður pantað af matseðli. Við fórum þangað í dag um 2 leytið. Ég byrjaði á því að fylla á diskinn af allskyns kræsingum af hlaðborðinu og síðan pantaði ég mér pizzu. Úrvalið þarna er mjög mikið og allt alveg rosalega gott. Þegar ég var búin með pizzuna var haldið að kökuborðinu, sem var fullt af gómsætum kökum af öllum gerðum. Ég fyllti diskinn minn (reyndar tvær hæðir ) með litlum bita af flestum kökunum og voru þær allar alveg rosa góðar. Eftir það fékk ég mér vöfflu og ís og fullt af nammi. Ég verð að viðurkenna að ég át vel yfir mig þarna og var alveg að springa á eftir. Á morgun fer ég í töku fyrir eitthvað editorials með mjög frægum Bollywood leikara, Saif Ali Khan (sjá einn af mörgum aðdáendavefum hér) en hann fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni Race, sem ég tók þátt í um daginn og sagði frá hér. Segi kannski nánar frá því síðar, því nú þarf ég að drífa mig út að borða á restaurant sem heitir Myst. | JW Marriot hótelið í Mumbai Lobbýið Kaffiterían þar sem við borðuðum |
Bloggar | Breytt 30.6.2007 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.6.2007 | 18:30
Eitt blautasta land veraldar...
Núna stendur monsoon tímabilið yfir hér í Mumbai, en það varir frá júní og út september. Ég hef aldrei á ævinni kynnst annarri eins rigningu og hér, enda þarf maður stundum að vaða í allt að 10 cm djúpu vatni. Rignt hefur nær stanslaust undanfarna daga, fyrst var ég hálf fegin, því ég brann illa í sólinni við tökur fyrir sjónvarpsauglýsingu í sundlaug fyrir rúmri viku síðan. En öllu má nú ofgera og ekki er spáin fyrir næstu 10 daga glæsileg eins og sjá má hér. Nú skil ég hvað átt var við, þegar mér var sagt að Indland væri eitt allra blautasta land veraldar. Og versti mánuðurinn er eftir, því í júlí rignir yfirleitt mest.
Í júlí árið 2005, urðu hér gríðarleg flóð, sem ollu miklu tjóni og um 1000 manns létust (sjá nánar hér). Göturnar hérna breyttust í stórfljót (sjá mynd), en þann 26. júlí 2005 rigndi hvorki meira né minna en 944 mm, sem er eitt það mesta sem mælst hefur í sögunni. Til samanburðar þá er sólarhrings rigningarmetið á Íslandi skv. vef veðurstofunnar 293 mm. Það verður spennandi að sjá hvernig júlí í ár verður hérna.
Hmmm, ég sem sagt hálf öfunda ykkur heima á Íslandi liggjandi í sólbaði. En ævintýrið hér heldur áfram, margt spennandi framundan, var m.a. að fá hlutverk í bíómynd, þar sem ég leik á móti upprennandi stórstjörnu, að því er mér er sagt. Segi ykkur meira frá því síðar.
Bloggar | Breytt 5.7.2007 kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2007 | 10:04
Myndablogg I
Langaði að prófa að gera smá myndablogg.
Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar þegar við vorum í tökum fyrir Bollywood bíómyndina Race.
Keyrðum í 4 klukkutíma að stað sem kallaður er Maysjalgard. Með myndunum eru stuttir skýringartextar.
Hér til hægri er ég að reyna að brosa og pósa, sem getur verið erfitt þegar maður hefur ekki sofið nógu mikið.
Á myndinni hér til vinstri erum við stelpurnar ásamt aðstoðarmanni okkar - hann stjanaði við okkur og gerði allt sem við báðum um; voða indæll náungi. Hægra megin við okkur Helgu eru Naomi og svo Tanya sem býr í sömu íbúð og við og síðan kemur María sem er líka hjá Eskimó Models.
Hér er í ég í atriði þar sem ég er að tilkynna sigurvegara kappakstursins. Fékk 5 mínútur til að læra línurnar. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.)
Hitti þennan apa á leiðinni á tökustað
Fleiri myndir er að finna í myndaalbúminu Race.
Bloggar | Breytt 26.6.2007 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2007 | 16:27
Topp 10 listinn í Bollywood
Ég verð að viðurkenna það að tónlistarmyndbandið með Prabhu Deva, sem ég lét fylgja með þessari færslu hér er ekki dæmigert fyrir það sem verið er að gera hér í Bollywood í dag og einnig það að ég valdi það fyrst og fremst vegna þess að mér fannst það frekar ýkt og fyndið. En samt sem áður, þá eru vestræn áhrif mjög rík í flestu sem er verið að gera hérna, sem blandast stundum illa við indverska menningu. Þessi eftirsókn í vestræna menningu er svo sem mjög góð fyrir mig, því ég er eina ljóshærða fyrirsætan hérna hjá Eskimó Models í Indlandi, eins og sjá má hér (smellið á myndina af mér ef þið viljið sjá fleiri myndir) og gerir að verkum að eftirspurn er eftir minni týpu. Fínt er líka að ég er nokkuð örugg um að þurfa ekki að taka að mér hlutverk þar sem eitthvað kossaflens er á ferðinni, en Indverjar eru ekkert fyrir slíkt eins og Richard Gere fékk að kynnast fyrir nokkrum vikum síðan (sjá frétt um það hér). Ég læt hér fylgja myndband með brotum af topp 10 vinsælustu kvikmyndalögunum í Bollywood, eins og listinn leit út einhverntíman í desember síðastliðinn, svo þið hafið nú aðeins betri mynd af þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2007 | 02:11
Sólbrennd, svefn- og matarlaus :-(
Síðustu dagar hafa verið langir og strembnir; verkefni á hverjum degi og svo bætti ekki úr skák að ég fékk magapest, sem ég hef ekki jafnað mig á enn. Í dag var ég að leika í sjónvarpsauglýsingu, sem var tekin upp í sundlaug. Ég hafði ekki hugmynd um að hún yrði tekin upp í sundlaug og tók því enga sólarvörn með mér. Þannig að núna er ég illa sólbrennd, eldrauð og get vart hreyft axlirnar. Enn eitt innleggið í reynslubankabókina; sem sagt hér eftir verður sólarvörnin alltaf höfð með í veskinu.
Verkefnin byrja yfirleitt eldsnemma á morgnana og oft þarf að ferðast um langan veg. Því hefur ekki verið mikið um svefn að undanförnu, t.d. vaknaði kl. 4:45 þar síðustu nótt eftir 3 klst. svefn og í morgun var risið úr rekkju kl. 3, eftir aðeins 2 klst. svefn; verð að fara að temja mér að fara að sofa fyrr, sem getur verið erfitt fyrir svona næturhrafn eins og mig.
Batteríin eru sem sagt alveg að tæmast og ekki fæ ég mikla orku úr matnum, því ég hef ekki ennþá vanist matnum hérna eða fundið eitthvað við mitt hæfi; allt er of mikið kryddað fyrir minn smekk og því ekki gott. Einhver sagði mér að Indverjar krydduðu svona mikið til að drepa bakteríur, þannig að kannski ætti maður að reyna að láta sig hafa þetta. Þannig að í dag var ég ósofinn, brennd og án matar - best að hafa nokkra banana líka með í veskinu næst. Svo fæ ég líka lítinn svefn í nótt, þarf að vakna um 6:45, svo það á alveg að ganga frá manni.
Takan í gær var fyrir bíómynd sem heitir Race, fjallar sem sé um kappakstur. En þá vorum við nokkrar stelpur klæddar í litla búninga, frekar "sluttý" og áttu stelpurnar að halda á kappakstur klappstýrustöng. En ég var látin standa og kynna sigurvegarann. Ég hafði enga hugmynd um það fyrirfram og fékk ekki línuna fyrr en 5 mínútum áður. Þurfti að öskra línuna eins hátt og ég gat, sem ég var dálítið feimin við, því það voru fjölmargir áhorfendur. Það kom mér á óvart að ég skyldi vera látin gera þetta, því ég er sú yngsta og reynsluminnsta af stelpunum
Það tók 4 klst að fara á staðinn sem Race er tekin upp og sá ég fullt af öpum á leiðinni og smellti nokkrum myndum, sem ég set inn seinna í kvöld ef netið verður uppi. Þá sá ég fullt af skrítnum skordýrum þarna, sem ég hef aldrei séð áður, og það versta var þegar ég fann kónguló hangandi í hárinu mínu, en þið sem þekkið mig og vitið af kóngulóafóbíunni minni getið rétt ímyndað ykkur hvernig viðbrögðin voru.
En ekki meir í bili verð að skjótast!
Bloggar | Breytt 14.7.2007 kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2007 | 19:50
Bollywood vs Hollywood
Eitt af því fáa sem ég hafði heyrt eitthvað að ráði um Indland áður en ég kom hingað var Bollywood, sem er stærsta miðstöð kvikmynda- og skemmtanabransans á Indlandi. Bollywood er reyndar ekki nein sérstök borg, heldur viðurnefni sem festst hefur í gegnum tíðina á þennan bisness hér í Mumbai, sem dreifist víða um borgina. Viðurnefnið er myndað úr upphafsstafnum í Bombay (sem Mumbai hét áður) plús Hollywood að H'inu slepptu, sjálfsagt vegna þess að Indverjarnir hafa ekki ósjaldan reynt að líkja eftir því sem gert í höfuðborg kvikmyndaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Aðrar miðstöðvar kvikmyndaiðnaðarins á Indlandi hafa fengið svipuð viðurnefni, eins og Tollywood og Kollywood. Oft notar fólk reyndar Bollywood nafnið af misskilningi til að vísa til alls indverska kvikmyndaiðnaðarins. (Athugið að myndin hér að ofan er "photosjoppuð" útgáfa af Hollywood merkinu fræga.)
Ég hafði engan veginn gert mér grein fyrir því áður en ég kom hingað, hversu umfangsmikil starfsemin í Bollywood er, en skv. þessari heimild hér eru framleiddar hér u.þ.b. 1000 kvikmyndir á hverju ári, sem er ca tvöfalt meira en gert er í Hollywood. Og þá hefur Bollywood vinninginn hvað varðar fjölda seldra miða, 3 milljarðar á móti 2,6 milljörðum. Hinsvegar hefur Hollywood yfirburðastöðu, þegar allar peningaupphæðir eru skoðaðar.
Langmest af efninu sem framleitt er hér er á tungumáli sem heitir hindi, sem er mest talaða málið hér um slóðir og hið opinbera tungumál Indlands, en enska hefur reyndar líka stöðu sem opinbert mál, enda tala allir sem maður hittir hérna ensku.
Áhugi Indverja á kvikmyndum, tónlist og dansi, er gríðarlegur. Hvert sem litið er sér maður auglýsingaskilti um kvikmyndir. Og stjörnudýrkunin hér er margfalt meiri heldur en við eigum að venjast.
En menningaheimurinn hér er nánast eins ólíkur okkar og hugsast getur og finnst okkur því oft kómískt, það sem fólki hér finnst "kúl og töff", á þetta ekki síst við þegar þessir tveir ólíku menningarheimar eru bræddir saman, þá getur útkoman í okkar vestrænu augum verið ansi spaugileg. Til að þið skiljið hvað ég er að fara, þá læt ég fylgja eitt tónlistarmyndband hér af YouTube þar sem stórstjarna frá Suður-Indlandi "performerar"; þessi kann alla taktana frá George Michael og Michael Jackson og blandar þeim saman við indversku taktana sína. Njótið vel!
Bloggar | Breytt 14.7.2007 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)